Ég er að skipta um þak á bernskuheimili mínu þessa dagana. Þar býr Hansi bróðir minn eins og lesendum þessarar síðu er flestum kunnugt. Hann hefur nefnt þetta við mig í nokkurn tíma hvort ég geti skipt um þakið fyrir hann.
Það verður gaman að sjá húsið með nýjan hatt. Það verður háreistara, þar sem þakið hækkar um 25 cm. Eins verða settir verklegir þakkantar hringinn í kring. Ég hlakka til að ljúka þessu verki. Ég held að húsið verði mun fallegra við þessa breytingu. Það vekur athygli mína að sjá að pabbi hefur líklega smíðað þakið í nokkrum áföngum. Það er prjónað á húsið jafnóðum og hann hefur byggt við. Það hefur ekki skipt öllu máli hvort hallinn væri sá sami á þekjunum, aðalmálið að rigningin héldist úti. Praktíkin allsráðandi. Ég verð að nota sömu aðferðafræði. Nýja þakið er prjónað ofan á gamla, alveg eins í laginu.
Ég var fyrir austan áðan. Var að hjálpa Hlyn að koma reisningu nýja hússins af stað. Þetta verður mun betra hús en gamla húsið (verðum við að vona). Það þarf reyndar ekki að vera mjög gott til þess...! Ég sá að maðkurinn er farinn á stjá í víðinum hjá mér fyrir austan svo ég verð að fara að eitra fyrir honum svo hann geri ekki skaða eins og fyrir tveimur árum. Ég fór hjólandi auðvitað. Alltaf jafngaman.
Er nýkominn heim, búinn að snæða og spjalla við fólkið mitt sem var í heimsókn. Núna er ég sem sagt sestur niður og farinn að skrifa. Ég sit við opinn gluggann og hlusta á vorhljóðin utandyra. Góður tími vorið.
Það er mikið að gera hjá mér þessa dagana svo það er gott að gíra niður í stóíska leti hér á árbakkanum. Húsið við ána er afstressandi, það gerir árniðurinn og nálægðin við náttúruna.
Hér er ró og hér er friður, hér er gott að setjast niður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli