fimmtudagur, ágúst 18, 2011

Ég er í formi...!

Um það verður ekki deilt, bara spurningin hvernig formið er í laginu. Eru ekki til kringlótt form? Ég hef í mörg ár unnið hörðum höndum að því að koma mér í það form sem ég er í núna. Ég státa af bumbu sem margur sýslumaðurinn hefði öfundað mig af í gamla daga en nú hefur mér verið ögrað með áskorun um að minnka bumbuna, Burpees skal það vera ekki bumba.
Eins og ég sagði ykkur síðast þá erum við Erlan að gera æfingar sem kallast þessu íðilskemmtilega nafni börpíur í íslenskri þýðingu. Það felst í því að skella sér flötum, taka armbeygju og stökkva svo upp aftur. Þetta er svo byggt upp þannig að fyrsta daginn gerir maður eina æfingu, næsta dag tvær, síðan þrjár og svo framvegis upp í hundrað.
Í morgun voru teknar 18 pörpíur og bumban kvartar sáran enda að henni vegið.

Við vorum annars að koma frá Danmörku þar sem við vorum í brúðkaupi elstu dóttur Óla bróður Erlu. Ferðin var góð í alla staði, veðrið fínt og við okkur stjanað að vanda.

Annað brúðkaup er svo í burðarliðnum. Arna og Hafþór munu gifta sig í Fljótshlíð um helgina. Breiðabólstaðarkirkja varð fyrir valinu hjá þeim og Goðaland fyrir veisluna.
Það fer vel á því þar sem við eigum rætur okkar þarna í Fljótshlíðinni. Í Goðalandi gekk ég í skóla og á margar góðar minningar af staðnum og má því segja að ég sé ánægður með staðarvalið.

Mitt í þessum ánægjulegu viðburðum er maður samt minntur á hverfulleik lífsins þegar skólabróðir minn missti unga konu sína um helgina komna á steypirinn með tvíbura. Án nokkurs fyrirvara var lífið búið, börnunum var bjargað en eru mjög veikburða. Góð áminning um að nota tímann vel og sóa honum ekki í fánýta hluti.

Sólin skín þessa stundina og það spáir vel fyrir helgina. Sumarið er ekkert búið þó kominn sé miður ágúst. Haustið er samt handan hornsins. Það fer vel á því, haustið er góður tími við veiðar og fleiri skemmtilegheit. Dagar í Baugsstaðaós og Vola framundan og kallinn kátur, loksins hægt að viðhalda karlgensskyldunni og veiða fyrir veturinn, safna í sarpinn og heyja harðindin.

Njótum þess að lifa gott fólk meðan tækifærið er til þess.

Engin ummæli: