Á svona morgnum þar sem vindurinn ýlfrar á glugganum og þétt snjókoman ýrist niður svo varla sér milli húsa langar manni ekkert sérstaklega að fara út. Þegar hlýjan innandyra umvefur og frúin enn sofandi á efri hæðinni virðist það hreinlega vera fjarstæðukennt, en... er eitthvað spurt að því? Á mínum uppvaxtarárum var það ekki gert.
Í dag á ég til að leyfa mér að fara svolítið seinna af stað ef þannig vill til, ef það kemur ekki niður á neinu sem ég er að gera. Ég flokka það sem hagræðingu á vinnutíma, get ekki viðurkennt að það sé hreinræktuð leti.
Nýja ísbúðin er á dagskrá dagsins þ.e. vinna við innréttingu hennar. Ekkert verður eins og var, allt breytt. Ég mun sakna alls plássins og þess að sjá heilu fjölskyldurnar sitja til borðs og njóta ísréttanna okkar, en þetta er eins og lífið sjálft, allt undirorpið breytingum.
En nú er kominn tími til að taka í hnakkadrambið á sjálfum sér og hespa sér af stað að gera eitthvað af viti... eftir einn kaffibolla.
Njótið dagsins í snjókomunni gott fólk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli