laugardagur, desember 31, 2011

Gömlu göturnar...

Árið hefur einkennst öðru fremur af neikvæðum fréttaflutningi, af kreppunni margumtöluðu, óráðsíu af ýmsum toga, mótmælum, byltingum, jarðskjálftum og stríði um víða veröld. Oft setur mann hljóðan og maður spyr sig hvert erum við að fara, þó auðvitað sé líka margt jákvætt og gott á ferðinni?

Öll þessi neikvæða umræða grefur um sig í sálartetri þjóðarinnar og bætir ekki ástandið. Mig setur oft hljóðan yfir fréttaflutningi, ekki síst þegar rætt er um stöðu kristinnar trúar og kirkjudeilda í landinu okkar, það heggur nærri mér. Þjóðkirkjan og mörg trúfélög eru í helgreipum orðaskaks og átaka um hluti sem kristin kirkja ætti aldrei að vera bendluð við. Það er svo komið að þjóðin holdgerfir kristni við misnotkun af ýmsum toga, ekki síst gagnvart börnum og það sárasta er að hún á innistæðu fyrir því.

Eins og kjarninn í orðum Krists er gullvægur og góður virðist sem hann sé gufaður upp og heyrist ekki, því hismið og dauðu kvistirnir hylja það góða fagra og fullkomna sem felst í orðum Krists. Innsti kjarni þessara orða, "Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan", fellur siðferðislega og í raun, undir lífsspeki sem allir geta sameinast um, trúaðir eður ei. Þessi orð flísfalla undir "hið góða fagra og fullkomna" sem kristin trú felur í sér.
Það er meira að segja svo að fáir myndu neita því, ekki einu sinni hörðustu trúleysingjar, að Ísland væri betur sett ef þessi kjarnaboðskapur væri í hávegum hafður og ekki síst hjá kirkjunnar þjónum.

Mér flaug í hug hið fornkveðna orð ritningarinnar, "Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld" því mér sýnist einhvernveginn að þessi orð eigi vel við í dag þ.e.a.s. ef ég leyfi mér að kalla orð Krists "gömlu göturnar".
Orðin eru þarna ennþá, gamli stígurinn er þarna enn einhversstaðar undir draslinu.

Græðgisvæðingin hefði varla fengið þennan byr í seglin eins og raunin var ef þessi gömlu sannindi hefðu verið leiðarljós. Þessi kærleiksboðskapur er í eðli sínu hljóðlátur en skín skært þar sem hann er viðhafður, hann felst í hjálp við náungann, virðingu og mannlegri reisn. Það er því sorglegra en tárum taki að það skuli vera tilteknir kirkjunnar þjónar sjálfir, settir boðberar þessa góða boðskapar sem hafa öðrum fremur kaffært hann með illum gjörðum sínum, skólabókardæmi um hvernig skemmt epli eyðileggur allan eplakassann.

Ég vona að kristin trú færist nær kjarna sínum á árinu sem er að heilsa okkur og að þjónar kirkjunnar færist nær hlutverki sínu og verði þeir boðberar ljóss og friðar sem þeim er ætlað að vera.

Ég þakka lesendum mínum fyrir góða samfylgd hér á bloggsíðunni og þakka fyrir heimsóknir ykkar hingað sem eru langleiðina í að vera fimmtíu á dag.
Eigið jákvætt og farsælt ár framundan og... Guðs blessun í ríkum mæli.

Engin ummæli: