...var spurt úr fanginu á mér í gær og spyrjandi og saklaust augnaráð vænti svars. Það er alveg æðislegt því ég á svo mörg yndisleg barnabörn eins og til dæmis þig. Orðalaust fékk ég þétt faðmlag um hálsinn og breitt bros, engin orð.
Ég hef verið að hugsa um þetta í morgun og finn með sjálfum mér hvað ég nýt mikilla forréttinda að fá að lifa það hlutverk að vera afi. Það eru ekki ónýt jól sem ná að fanga hugann með þessum pælingum.
Afahlutverkið er beint framhald af pabbahlutverkinu sem ég hef alltaf notið í æsar og fundist ég ríkur maður þótt veraldlegt ríkidæmi hafi stundum fetað sig framhjá okkur.
Ég skal viðurkenna að ég hugsaði nánast aldrei um afahlutverkið, var of upptekinn af pabbahlutverkinu. Ég gerði mér einhvern veginn aldrei ljósa grein fyrir því að bónusinn fyrir að ala upp stóran barnahóp væri enn miklu stærri afabarnahópur. Samt átti ég mér einhverja óljósa mynd af því að þegar dæturnar flyttu að heiman yrði heimilið okkar alltaf einhverskonar miðstöð fyrir þær og fólkið þeirra.
Árin líða hratt og óljósa myndin mín er orðin kristaltær og afar falleg og prýðir heimilið okkar framar öllu öðru.
Afi, hvernig er að vera afi? Það er lífið sjálft í mínu tilfelli. Það gefur mér þann stað að vera pabbi og tengdapabbi sem enginn annar hefur innan þessa yndislega hóps sem ég á og svo kórónuna sjálfa... að vera afinn sem allur þessi litli barnaskari á. Það gefur svo hlutverkinu aukið vægi og vigt að barnaskarinn virðist hafa ánægju af nærveru minni og ömmunnar sem, eins og allir vita sem til þekkja, er einstakt eintak. Fornafn hennar kalla ég "eðal"... og svo má bæta við mamma, amma, eiginkona, vinkona og svo allt hitt sem ég nefni ekki.
Já, afinn á þessum bæ, pabbinn, eiginmaðurinn, smiðurinn, lögfræðingurinn og allt hitt sem hægt er að skreyta sig með er lukkunnar pamfíll vegna þess að þegar hann lítur um öxl er hann sáttur og ef hann lítur fram á veginn hefur hann ríka ástæðu til að hlakka til því ríkidæmið hans liggur ekki í veraldlegu drasli heldur í fólkinu hans og það er ekkert annað en... fljótandi, fljótandi auðlegð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli