Skötuát á þorláksmessu er eftir því sem ég best veit ekki gamall þjóðlegur siður nema á vestfjörðum þar sem siðurinn er ævaforn, heldur markaðssetning á matvöru sem varð vinsæl á afmörkuðu svæði. Ekki var um að ræða neina munaðarvöru heldur fisk sem hægt var að geyma líkt og siginn fisk. Skötuát á þorláksmessu kemur úr kaþólskum sið því á föstunni mátti ekki borða góðan mat heldur átti það að bíða til jólanna. Skatan veiddist bara á vestfjarðamiðum á þessum tíma hér áður og því kemur siðurinn að vestan, svona fyrir ykkur fróðleiksþyrsta. Sunnanlands var t.d. rýrasti harðfiskurinn soðinn á þorlák.
Ég verð að segja að ég kann mun betur við að endurvekja rammíslenska siði og venjur eins og skötuát frá fyrri tíð heldur en þessar amerísku mýtur sem tröllríða hér annað slagið t.d valentínusardagur, þakkargjörðardagur, hrekkjavöku og allskyns aðrir dagar og siðir sem við erum að eltast við.
Þessir dagar eiga þó það sameiginlegt að verslun með það sem fylgir þessu er drifkrafturinn á bak við markaðssetninguna, það er hægt að græða á þessu.
Það er svo auðvitað val hvað maður setur upp í sig og lætur vel líka. Amerísku mýtunni fylgir yfirleitt eitthvað bragðvond en aftur á móti þeirri íslensku eitthvað gott og kjarnmikið.
Ég er reyndar svolítill villimaður þegar kemur að mat. ég er til dæmis með hrátt hangiketslæri hér á eldhúsborðinu og fæ mér flís annað slagið og þykir það ómótstæðilega gott. Skatan er líka í uppáhaldi hjá mér þó mér finnist gott að hafa hana bara einu sinni á ári. Siginn fiskur er fínn og hákarl er afbragð.
Ég fékk senda skötu að vestan frá fólki sem við kynntumst í Austurríki í sumar. Við hittumst Erlu fjölskylda í dag hjá Sirrý og Guðjóni og snæðum hana saman, það er að segja þeir sem kunna að meta þetta góðgæti.
Jólin á morgun og allt að gerast.
Njótið áfram.
1 ummæli:
Glæsilegt að þú hafir bloggað ;) var búin að ákveða að reka á eftir einu aðventubloggi ef það væri ekkert komið :) Hér verður skötu og saltfisk veisla hjá mér í kvöld og það verður bara gaman! :O) Njótið tímans saman! Það gerum við :) knús
Skrifa ummæli