Um leið og hlýnaði fór að snjóa. Ég held að það sé skárra að hafa frostið en snjókomu og skafrenning. Annars er veðrið ekkert að stressa mig þessa dagana, bjart og kalt er ágætis jólamánaðarveður.
Við ætluðum í leikhús í gærkvöldi en hættum við. Það var hvort tveggja snjókoman og væntanlega bylur á heiðinni og svo vorum við frekar lúin eftir törn undanfarinna daga. Það var ágætt að vera bara heima í rólegheitunum og horfa á ræmu.
Það er drifhvít jörð og fallegt að sjá ána á svona rólegheitamorgni, alltaf jafn falleg og friðsæl. Það var einstakt að fylgjast með henni þegar frostið var mest á dögunum því þá gufaði af henni eins og hún væri volg. Hún var það auðvitað ekki en hún var samt heitari en lofthitinn og því rauk svona af henni. Umhverfið fór ekki varhluta af þessu því tré og runnar og raunar allt umhverfið varð loðið af ísnálum þegar ísköld gufan festist á hverju sem er og úr varð mjallhvít mynd af umhverfinu. það var gríðarlega fallegt, dulúðugt meðan gufan læddist um og einkar jólalegt. Eftir snjókomu næturinnar er enn jólalegra hér, snjór á greinum, stafalogn og sólin skín lágt á himni, hún gerir það ekki lengi því það styttist óðum í stysta sólargang.
Frúin mín er loksins komin niður af efri hæðinni, þá fer gamli og skenkir í tvo bolla af rjúkandi kaffi. Það eru lífsgæði að njóta svona morgna saman réttu megin glersins, spjalla um lífsins gang og virða fyrir sér fannhvítt útsýnið og ána mála síbreytilegu málverkin sín.
Hreinasta afbragð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli