Friður sé með þér og fögnuður um jólin. Já jólakveðjurnar og lögin óma um húsið og það er ilmur af jólum því hamborgarhryggurinn mallar á hellunni og gefur fyrirheit um góða samveru við sig um sexleytið. Erlan setti upp grautinn áðan en það er kúnst að hantera hann rétt. Hún hefur alltaf haft það hlutverk að sjá um hann en nú er það ég sem fæ það verkefni því frúin ákvað að hafa opið í Basic plus og Home design í tvo tíma á aðfangadag.
Við verðum fimm hér í kvöld, já þú last rétt, við Erla og Hrund og svo buðum við Önnu sem vinnur hjá okkur í Basic plus að vera hjá okkur ásamt dóttur sinni. Hún er frá Rússlandi og býr ein, það lá því vel við að bjóða henni að vera með okkur.
Það hefur hækkað eitthvað í græjunum hér á bæ, alveg rétt Hrundin er komin heim úr búðinni og syngur hástöfum með eins og henni einni er lagið. Við erum að undirbúa hádegismatinn hér sem verður tilbúinn þegar Erlan kemur úr búðinni, en það er hefð fyrir honum hér eins og flestu öðru um jólin. Laxinn, lifrarkæfan, síldin og allskonar góðmeti er á borðum. Sætindi eru löngu farin af jólaborðum hér og í staðinn erum við með svona gourmet í staðinn, bæði hollara og betra.
Jæja ég ætla að fara og hjálpa Hrundinni að gera klárt.
Ég óska ykkur vinir gleðilegra jóla og njótið daganna framundan.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli