...hreinasatt og engin lygi, næstum að ég finni vorilminn líka. Það er raunar brunafrost og snjór, áin ísköld og freðin. Það má samt láta sig dreyma. Ég er með upptöku í gangi í tölvunni frá því í maí af Fitinni þegar fuglasinfónían var í algleymi. Þetta er voðalega notaleg upptaka og minnir á hlýjar og bjartar vornætur á Föðurlandi. Ég læt mig dreyma um vor og fuglasöng í lofti búandi í mínu hlýja húsi með allt til alls.
Hvernig ætli forfeðrum okkar hafi liðið hugsandi til vorsins, hímandi í dimmum, köldum, óeinangruðum og saggafylltum torfhúsum, þar sem eini ylurinn var af húsdýrum og hlóðunum í eldhúsinu. Það hefur verið köld vist og löng, ég veit ekki hvort hefur verið betra, hörkufrost eða umhleypingar því húsin héldu oft illa vatni og láku meira og minna. Eftirvæntingin eftir vorinu hlýtur að hafa haft aðra og fyllri meiningu þá en nú og tíminn hefur silast áfram.
Tíminn, þetta ólíkindatól silast ekki lengur, hann er eins og við vitum á mikilli hraðferð og það er víst að vorið verður komið áður en við áttum okkur á.
Við Erlan ætlum í bæjarferð á eftir, Katrín Tara á afmæli í dag og við ætlum auðvitað að fara í afmælið, sem minnir aftur á tímann... það er fáránlega stutt síðan við Erla kynntumst, kornung.
Fleygiferð, það er málið, við lifum á fleygiferð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli