Það heilsaði með logndrífu og hitastigi um frostmarkið, sem kallast blíða miðað við árstíð og venju undanfarinna vikna. Við áttum góð og róleg áramót í gærkvöldi. Hafþór og Arna ásamt föruneyti voru hjá okkur og gistu í nótt. Hrund fór til höfuðborgarinnar í nótt, hún er enn að slíta partískónum sínum og kannast ekkert við að þurfa að sofa þegar annað er í boði.
Við verðum hér samt öll á eftir og ætlum að eyða deginum saman hér í Húsinu við ána. Árið var kvatt með samveru við fólkið okkar og nýju ári heilsað með enn meiri samveru, mér líkar svona, enda fellur þetta algerlega að hugmyndum mínum um hvernig ég vildi haga samskiptum við ættlegginn okkar þegar hann stækkaði.
Þrátt fyrir kólguský í heimsmálunum lítum við hér væntandi til framtíðar, ég hef á tilfinningunni að þetta ár verði gott og farsælt fyrir okkur. Árið verður líka gott fyrir okkur sem þjóð, ég held að við séum að gægjast upp fyrir brúnina þar sem við féllum fram af.
Ég óska ykkur lesendum mínum þess eins að árið beri með sér gæfu og farsæld og verði ykkar besta ár fram að þessu.
Njótið dagsins vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli