Gærdagurinn var kærkominn, hann var notaður til að gera ekkert eða því sem næst. Við nýttum hann því til að kíkja austur í kofa og athuga hvort ekki væri allt í lagi þar, sem var. Ég kveikti upp í kamínunni og við létum eftir okkur að dvelja þarna í nokkra klukkutíma við arineld. Kamínan er fljót að hita upp og eftir korter til hálftíma er orðið vel hlýtt inni. Það var ljúft að setjast aðeins niður í sveitasælunni og leyfa sér að slaka á við eldinn og hugsa um þau fögru fyrirheit sem kofinn lofar þegar vorar á ný.
Við kíktum svo á Gylfa og Christinu og ætluðum að vitja Hansa og Auju líka en tíminn flaug hjá eins og honum er svo gjarnt.
Í dag eigum við von á fólki hingað í Húsið við ána því Hrund á afmæli í dag og Erlan eftir nokkra daga. Þær eru báðar miklar afmælis- og jólabörn og njóta þessara hátíða meira en flestir. Til hamingju með dagana ykkar elsku yndin mín.
Það rignir heil ósköp þessa stundina svo vonandi tekur eitthvað af þessum svellalögum upp. Það kom reyndar á óvart hvað var lítil hálka á leiðinni austur í gær, allavega á þjóðvegunum. Það var auðvitað glæra á heimreiðum og afleggjurum þar sem ekki var búið að sanda en annars í fínu lagi.
Frúin er farin að brölta á efri hæðinni svo það fer að koma tími á kaffibollann með henni. Ég er auðvitað búinn með fyrsta bollann sem var tekinn snemma í morgun að venju.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli