Það fauk í hann í gærkvöldi og hann hefur ekki linnt látunum síðan. Þetta er versta vetrarveður síðan við fluttum hingað 2006. Ég hafði varann á í gærkvöldi og fylgdist með því veðurfræðingar höfðu sagt að ætti að hvessa. Nálægt miðnætti var enn logn hér en það stóð ekki lengi eftir það. Með hvelli rauk upp stormur svo ekki sást út úr augum og gatan fylltist á hálftíma af sköflum.
Í alla nótt hristist húsið stafnanna á milli og snjóbylurinn var þannig að ekki sást á milli húsa. Það er enn rok en bylurinn hefur minnkað.
Ég kíki alltaf eftir færðinni á vefnum, sérstaklega heiðinni. Kortið hef ég aldrei séð svona eins og sést hér að ofan, allt meira og minna lokað.
Ég fæ víst ekki tækin úr bænum sem ég átti að fá í morgunsárið fyrir ísbúðina.
Hvað um það, heimurinn ferst ekki við það. Kosturinn við svona veður er auðvitað sú staðreynd að það væsir varla um nokkurn mann, hlýju húsin okkar eru orðin svo góð að flestir finna fyrir notalegheitatilfinningu þegar veðrið lætur svona.
Um að gera að njóta þess meðan er.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli