...uppi á borði eru það eina sem skyggir á logana því ég er sokkinn í sófann hér framan við arininn með tölvuna í fanginu og blogga. Snarkið lætur vel í eyrum og lágvær Tírólatónlist spilar undir mómentið. Það er vandalaust að gleyma sér hér í kofanum, láta hugann reika um Tírólahérað og leyfa góðum minningum að renna gegnum hugann, það kostar ekki krónu.
Við reynum að nota kofann eins og við getum, hann er svona staður sem vindur ofan af manni þegar mikið er að gera þó ekki sé nema sólarhringur eins og núna.
Fyrsta verk hér er oftast að vekja gömlu klukkuna til lífsins, trekkja sláttinn og tikkið, þessi 112 ára gamla stofuklukka er nauðsynleg til að skapa móment eins og við viljum hafa það, gamla sveitarómantíkin, þið vitið þessi stóíska. Út um gluggann sé ég kurlast niður blaut snjókorn annað slagið sem fjúka til og frá undan Kára kallinum sem virðist hafa gaman að því að leika sér núna. Hér er allnokkur snjór og greinilega margfrosinn því hann er eiginlega harðfenni með svellbunkum.
Það tilheyrir að elda góðan mat hér, þá er gott að eiga sæmilegan vetrarforða í kistunni og geta tekið eitthvað með á grillið. Við Erlan mín erum svo heppin að kunna svo vel við okkur að okkur leiðist ekki þó við séum tvö í kotinu.
Við erum bæði óendanlegir sælkerar og því hef ég gaman af því að gera tilraunir á grillinu fyrir hana. Hún segir mig dekra sig upp úr skónum með þessu en það er eins og hún fatti ekki hvað það er í raun lítið endurgjald fyrir það sem hún dekrar mig.
Kannski erum við bara dekruð bæði hvort á sinn hátt.
Hún er búin að setja upp kartöflur svo það er best að ég fari að gera mig kláran í grillunina. Heim á morgun og alvaran í nefið.
1 ummæli:
Þið eruð flottustu fyrirmyndir í heimi! LU og bið að heilsa mömmu sætu :) Eyglóin
Skrifa ummæli