...er alltaf á sínum stað. Hann er meiri viðhafnarbolli á sunnudagsmorgnum en aðra daga því þá á ég frí allajafna. Krossgáta og nokkrar sudoku þrautir eru oft fylgifiskur sunnudagsbollans og svo á ég það til að setjast við tölvuna og renna yfir fréttir dagsins, veður, fésið og svo dett ég oft niður í það að blogga aðeins.
Svona friðsælir morgnar eins og þessi, veðrið minnir á vor og Kári vinur minn sefur svefni hinna réttlátu og lætur ekki á sér kræla verða mér oft tilefni hugrenninga, og þá gjarnan um gæðin sem ég bý við sem mér finnst svo gott að setja niður á ritmál til að eiga síðar.
Það er nálægt því að vera tíu ár síðan ég byrjaði að blogga, þar af átta hér á blogspot. Það telst víst varla tískufyrirbæri lengur að blogga því fáir fást við blogg lengur eftir að fésið hertók netheima og annar tjáskiptamáti steinrann í kjölfarið. Ég er víst steinrunninn fornmaður, hef gaman að fésinu en ég les gjarnan blogg hjá völdum einstaklingum líka.
"Orð eru álög" segir einhversstaðar og ég velti því stundum fyrir mér hvort það geti verið rétt. Þau eru allavega til alls fyrst því hugmyndir breytast gjarnan fyrst í orð áður en þær verða að framkvæmd. Ég hef oft sagt að ég þrífist best á því að hafa nóg fyrir stafni og vilji vera upp fyrir haus í verkefnum. Ef orð eru álög þá er kannski best að hætta öllum yfirlýsingum. Ég tek svona til orða vegna þess að opnun ísbúðarinnar er rétt að bresta á eftir mikla vinnutörn því Home design búðin var inni í þeim pakka líka og ég var farinn að hugsa um að það væri gott að eiga smá tíma til að hvíla sig og taka því rólega þegar ég fékk símtal frá einum eigenda Dominos á Íslandi. Erindið var að biðja mig að sjá um að opna Dominos pizzustað hér á Selfossi. Ég tók auðvitað verkefnið að mér enda áskorun í því, því verkið á að vinnast á miklum hraða. Ég lít á þetta sem blöndu af verktöku og lögfræði því verkefnið felur í sér hagsmunagæslu fyrir þá, öflun tilboða, samningagerðir og mikla skipulagsvinnu.
Jæja það heyrist brölt á efri hæðinni og því kominn tími til að skella í annan bolla og drekka hann með betri helmingnum mínum.
Njótið dagsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli