Ég hlustaði á prédikun um daginn hjá séra Kristni Á. Friðfinnssyni sóknarpresti hér í Selfossprestakalli. Skemmtilega framsettur boðskapur sem náði eyrum mínum og athygli um hvernig höndla má hamingjuna á átta mismunandi vegu. Hann byggði lesturinn á rannsóknum viðurkenndra sálfræðinga sem gerði niðurstöðuna marktækari í mínum huga.
Ekki er hugmyndin að endurtaka hér það sem hann sagði, utan eitt atriði sem náði eyrum mínum sérstaklega og þá aðallega vegna þess að ég gat svo vel staðsett sjálfan mig þar. það snerist um að vera sjálfur með hendur á stýri í eigin lífi þ.e. að láta ekki aðra stýra gjörðum manns.
Margur maðurinn lifir lífinu í stöðugri þægð við náungann og aktar gjarnan í takti við það sem hann telur að aðrir vilji sjá hann gera og leyfir þannig öðrum að stýra lífi sínu.
Ég óx upp í umhverfi sem krafðist undantekningarlausrar þægðar við ákveðnar kenningar sem mér voru fastmúraðar og innbrenndar sem hinar einu sönnu og réttu. Trúarleg þægð sem ég hafði ekki afl til að skoða gagnrýnum augum fyrr en á fullorðinsárum, m.ö.o. ég eftirlét öðrum að stýra fyrir mig.
Það var frelsi í mínu lífi að finna þann stað að láta mér fátt um finnast álit annarra á mínum skoðunum eða gjörðum innan þess ramma sem eðlilegt er og fellur undir að hlusta á álit meðreiðarsveina sem oftar en ekki er til góðs.
Nýju fötin keisarans fjalla um þetta efni á sinn skemmtilegan hátt. Allir láta sem þeir sjái ekki fataleysi keisarans og skjalla hann fyrir flotta búninginn hans þangað til litla stúlkan læðir út úr sér að hann sé ekki í neinum fötum. Þægðin allra hinna gæti minnt mig á kafla úr fortíð minni.
Með þessu er ég ekki að líkja trúnni við kómískt fataleysi keisarans, öðru nær, trúin er mér dýrmæt, ég er að tala um gömlu kreddurnar og faríseaháttinn.
Ég læt ekki lengur að þægðinni og kýs að standa utan trúfélaga. Það truflar mig ekki, enda hefur það minna en ekkert vægi þegar trú mín er skoðuð. Hún hefur breyst því neita ég ekki, hún byggir á öðrum gildum, að mínu viti nær kjarnanum, fjær kreddum og yfirskini.
Séra Kristinn sagði það lykilatriði að vera sjálfum sér trúr og fylgja eigin sannfæringu. Þar er ég, með báðar hendur á stýri, og held fast.
Njótið daganna vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli