sunnudagur, apríl 24, 2011

Páskar og hret

Það gengur á með éljum. Spáin gerir ráð fyrir suðvestanstormi og varar við ferðalögum. Jafn mikið og tækninni fleygir fram í veðurspám get ég ekki skilið hversvegna það virðst vera minna að marka veðurspár núna en var fyrir nokkrum árum. Ég hef fylgst með veðri undanfarið ár vegna ísbúðarinnar en salan fer mjög eftir veðri og við verðum að skipa vaktirnar eftir því hversu mikið er að gera. Við treystum því á veðurspár en hending virðist ráða hvort þær rætast.
Kannski við ættum bara að fá okkur beina línu á veðurklúbbinn í Dalvík, það er hópur aldinna borgara sem spáir í veðrið eftir gömlum aðferðum. Ætli það sé nokkuð verra. Páskahretið árlega átti þó eftir að koma fram og sennilega er þetta það sem gengur nú yfir. Við ákveðum það allavega og væntum vorsins í framhaldi.

Nú er páskadagur og því fylgir páskaeggjaát... yfirleitt. Hér á bæ eru engin páskaegg þetta árið. Allir eru í aðhaldi við fitupúkann og hann elskar páskaegg og því er honum haldið soltnum þetta árið og sjá til hvort hann hypji sig ekki.

Það er ekki hægt að skrifa um páska án þess að minnast hvaða gildi þeir hafa fyrir kristna trú. Það má segja að ef upprisan hefði aldrei orðið hefði kristin trú aldrei orðið til heldur. Grundvöllur kristninnar er upprisan. Það er því í hæsta máta eðlilegt að þeir sem alls ekki trúa upprisunni, hafni þar með kristninni. Hvaða gildi hefði Kristur annað en að hafa verið merkilegur maður innan um alla hina merkismennina sem fæðst hafa, ef ekki nyti upprisunnar? Hvar væri kristin trú? því er auðsvarað, hún væri ekki til.
Ég hef oft velt því fyrir mér hversvegna páskahátíðin er ekki meiri hátið en hún er í raun. Jólin eru miklu meiri hátíð í augum alls þorra manna, þar á meðal mín. Það er þó á páskum sem grundvöllurinn varð til. Kannski hefur þetta að gera með kúltúr þjóðarinnar, en jólin eiga sér líka rætur aftur í heiðni að því leyti að á þessum tíma var því fagnað að sólin færi að rísa á ný en í kristni þýða þau, eins og allir vita, fæðingu frelsarans. Þessi tvöfalda rót lengst ofan í þjóðarsálinni hefur að líkindum vægi. Páskarnir ættu samt að vera á hærri stalli meðal kristinna þjóða en þeir eru, það er lógísk pæling, svo mikið er víst. Annars virðist ekki þurfa einhverja aldalanga sögu til að festa hátíðir í sessi, verslunarmannahelgin á sér enga svoleiðis sögu en er heilmikil hátíð, innmúruð og naglföst.

Þessi morgunþanki er bara smá hugarflug um tilgang eða tilgangsleysi hlutanna eins og svo sem flest sem ég hendi hér niður. Lítil stórhátíð sem ætti að vera á hærri stalli? Það er bara svo skrítið að eldast og skilja um leið betur og betur hvað við vitum lítið. Það er þó eitt gott við að velta fyrir sér tilgangi hlutanna, það skerpir stundum sýn á hvað er hismi og hvað eru hafrar.

Gleðilega páska vinir mínir, njótið súkkulaðisins - það er gott.

Engin ummæli: