föstudagur, apríl 22, 2011

Allra helgastur...

Þessi dagur ársins er sá allra helgasti í mínum huga. Í sveitinni heima var okkur kennt að þennan dag ætti ekkert að gera nema það allra, allra nauðsynlegasta. Hvað ungur nemur gamall temur, það er merkilegt hvað situr eftir úr uppeldinu kominn yfir fimmtugt. Raunar er það þannig að við mótum okkur auðvitað sjálf þegar foreldrahendinni sleppir. Ég fór ungur að heiman og byrjaði því uppeldishlutverkið á sjálfum mér snemma.
Það er samt þannig að ég hef alltaf haldið við þessari hugsun að föstudagurinn langi, dagurinn sem Jesú var krossfestur, sé sá dagur ársins sem við höldum helgastan. Það mótast af því að krossfestingin eins ljót og hún er, er áhrifavaldurinn sem gerir kristni að því sem hún er. Krossfestingin varð að vera undanfari upprisunnar til að um væri að ræða fórn til friðþægingar mannkyni.
Það er því umhugsunarefni hversvegna svo margir kristnir horfa framhjá þessu verki og predika lögmálskenningar fram í rauðan dauðann. Í mínum huga er það átroðsla og vanvirðing við fagnaðarerindið sem í krossfestingunni og síðan upprisunni felst.

Ég ætla þó ekki að fara að predika heldur geng ég sáttur út í daginn vitandi að orð Krists á krossinum "það er fullkomnað" eru í gildi og ég lifi undir þeirri náð sem í því felst.

Eigið góðan dag og njótið páskanna gott fólk.

Engin ummæli: