Ég er búinn að bíða eftir þeim um hríð. Ekkert hefur bólað á þeim ennþá en þau ættu að vera komin fyrir þó nokkru síðan. Svæðið þeirra er nú óvarið og grágæsir vappa yfir "heimilið" þeirra til margra ára sem nú er bara lítil óhrjáleg hrúga. Það er eftirsjá í þeim enda skemmtilegir nágrannar. Nína og Geiri eru öll.
Kannski gáfust þau upp yfir hafinu, orðin of lúin til að komast á leiðarenda, eða borið beinin á breskri grund, það væru ill örlög.
Það rann að mér sá grunur í fyrra að þau væru orðin gömul því síðustu tvö ár hafa þau ekki komið upp ungum þó þau hafi mætt á staðinn sinn, gert upp óðalið (flottara orð en dyngja) og tekið þátt í varpi eins og undanfarin ótiltekin árafjöld. Þegar við fluttum hingað fyrir fimm árum átti ég tal við gamla konu sem bjó í húsinu hér fyrir neðan, hana Boggu gömlu, sem dó fyrir tveimur árum. Hún sagði mér að þessar álftir hefðu orpið þarna í fjölda ára áður en við komum hingað.
Álftir maka sig til lífstíðar og halda tryggð við maka sinn ævilangt. Þær eru aldrei langt undan ef eitthvað kemur upp á og verja hvort annað af hörku ef þarf. Það er skemmtilegt umhugsunarefni hvað það er sem stýrir þessu. Er þetta innbyggð eðlisávísun til að viðhalda stofninum eða er þetta trúnaður og traust.... kannski kærleikur? Gæti allavega verið mörgu mannfólkinu til eftirbreytni :-)
Hvað sem ræður för þá er þetta fallegt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim koma heim eftir langt flug yfir hafið saman og fylgjast með þeim undirbúa fjölgun ættleggsins síns. Fallegur dansinn þeirra á vatnsfletinum og hljómmikill lúðrablásturinn á björtum sumarnóttum hér við ána ásamt endalausri þolinmæði við útungun eggja og natnina við ungana sem að lokum skriðu út hefur verið falleg ástarsaga að fylgjast með.
Það er söknuður af þeim. Kannski flytja afkomendur þeirra hingað, hver veit?
Njótið dagsins vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli