...og ég vöknuðum árla í morgun. Þeir voru báðir vaknaðir á undan mér en sáu um að ég svæfi ekki yfir mig. Vorið er komið og grundirnar gróa... Dagurinn brosti með mér þegar ég lá og hlustaði á þessa vini mína. Stelkurinn, með sitt hvella hljóð var svo nálægt að hann minnti mig á gamla tíma þegar ég var lítill drengur austur í sveit, fetandi grösugan lækjarbakkann með orm úti, búinn að tendra kveikiþráðinn að veiðidellunni sem síðar varð, vitandi návæmlega punktinn sem silungarnir kæmu undan bakkanum og tækju agnið og Stelkurinn, það fylgdi oftast, lék sér í kringum mig með sínum hvella hávaða. Svona eru minningarbrot bernskunnar, þau brjótast stundum fram og raðast jafnvel í heillega mynd, gjarnan af litlum strák að veiða og veiða meira og veiða enn meira.
Svona fæddist nú veiðidellan. Útiveran og fuglagargið ;-) það er grunnurinn. Hugurinn fer alltaf á flug þegar ég heyri þessi vorhljóð. Ég lá lengi vakandi áður en ég tímdi að fara á fætur. Það er eitthvað svo gott að hlusta á þessa fiðruðu tvífætlinga sem boða manni betri tíð og blóm í haga.
Njótið dagsins vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli