Þú kemst niður á sama hátt og þú fórst upp... eitt skref í einu, sagði ég við hana stjarfa af hræðslu sitjandi í slakkanum fyrir ofan stigana. Ég sat sjálfur við hliðina á henni og færði mig svo í stigann og lagði af stað afturábak niður. Hún fikraði sig að brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Er ég komin spurði hún þegar vantaði um það bil meter á að hún kæmi við efstu rimina. Ég brosti inni í mér og sagði henni að færa sig nær áður en hún bakkaði.
Ég get þetta ekki í alvöru sagði hún frosin áður en hún svo mikið sem tommaðist nær stiganum en teygði fótinn aðeins lengra.
Ég tók í fótinn og sagði henni að bakka. Hún lá á maganum og mjakaðist örlítið nær brúninni og teygði fótinn í átt að stiganum. Ég tók í fótinn og setti hann á efstu rimina. Þetta er efsta rimin sagði ég, bakkaðu nú aðeins nær. hún hreyfðist örlítið, ég get þetta ekki endurtók hún. Jú jú þú getur þetta alveg, komdu með hinn fótinn. Enn örlaði á hreyfingu og hinn fóturinn mjakaðist löturhægt nær. Hinn fóturinn fékk festu á riminni og þar stóð hún kyrr. Erling ég get þetta ekki endurtók hún. Ég tók í hinn fótinn og sagði komdu með þennan fót niður á næstu rim og svo stýrði ég honum þangað. Haltu þér svo bara með báðum höndum í efstu rimina meðan fóturinn fer á þarnæstu rim og ekki horfa niður, ég tók í þann fótinn og stýrði honum. Færðu nú hendurnar svo þær verði ekki eftir hérna uppi.
Hún ríghélt í efstu rimina með báðum höndum og vildi ekki sleppa. Ég heyrði hana tauta með sjálfri sér "hvað er ég búin að koma mér í" um leið og hún horfði fast upp á við, "ég skal aaaaaldrei fara hingað upp aftur".
Eftir nokkur þrep með þessum skemmtilegu tilþrifum sá ég tvo útlendinga koma að stiganum ofanfrá, þeir veifuðu og settust svo niður þolinmóðir, sáu augsýnilega hvað við var að fást.
Korteri seinna var næst síðasta þrepið eftir og ég sagði henni að nú væri hún komin niður. NEI sagði hún og ríghélt sér í rimina. Erla það eru 50 sentimetrar eftir. Fóturinn seig ofurrólega á milli þrepanna og niður á fast og enn ríghélt hún í rimina fyrir ofan sig.
ERLA MÍN þú stendur á jörðinni....! Þá fyrst leit hún niður.
Útlendingarnir sem höfðu setið rólegir og fylgst með gengu framhjá sposkir á svip og köstuðu kveðju á okkur. "Bien hecho, la señora" og blikkuðu hana.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli