Við tókum daginn í gær í flandur um sveitina mína. Við skoðuðum ýmislegt, meðal annars fórum við í langan göngutúr vítt og breitt um Tumastaðaskóg. Það var skemmtilegt og gaman að sjá hvað skógurinn er búinn að breiða úr sér og er orðinn stórvaxinn. Fuglalífið þar er gríðarlega fjölbreytt sem skreytir svona göngutúr óneitanlega. Það var ljúft að hvíla sig á brún Klittna og horfa á appelsínumýrarrauða fossana steypast fram af háum klettunum í logni og íslensku sumri eins og það gerist fallegast, landið sem hefur fóstrað okkur í hálfa öld gældi við okkur og staðfesti með okkur að við erum tengd þessu landi órjúfanlegum vináttuböndum sem gerir að verkum að við munum aldrei flytjast héðan búferlum.
Stundum eru svona móment þannig að maður vill ekki að þau hætti og því ákváðum við að halda áfram för upp Vatnsdal og skoða papahellinn þar og jafnvel halda áfram för lengra og skoða hinn papahellinn sem er upp við Krók. Þessir hellar eru afar merkilegir að því leiti að þeir eru handhöggnir í sandsteininn og þarna bjó fólk með börn sín og buru. Það var skrítið að hugsa til þess þekkjandi öll okkar nútímaþægindi sem við kunnum samt svo lítt að meta.
Við skoðuðum Grjóthyl í Fiská en það er staðurinn þaðan sem við Gylfi og Rúnar fórum forðum upp og yfir Þríhyrning norðanfrá. Mér varð hálfflökurt við tilhugsunina um að mín börn (afkomendur) færu þarna upp, ég væri á nálum. Þaðan keyrðum við austan við Öldu eftir troðningi sem ég hef aldrei farið áður enda var það með öllu ófært hér á árum áður og kannski orðum aukið að tala um að það sé fært í dag.
Þegar við nálguðumst Krók komum við að kletti sem skagaði upp úr veginum sem er niðurgrafinn um næstum metra á þessum kafla. Það var engin leið að komast yfir klettinn eða framhjá nema fara í vegarbætur sem við gerðum. Bakkinn á veginum var þannig að það var hægt að brjóta hann niður og hlaða undir bílhjólin og komast þannig yfir klettinn. Þetta gekk upp og var bara gaman.
Í Króki sýndi ég Erlu gömlu réttirnar og staðinn sem við tjölduðum þegar réttirnar voru haldnar þar. Nú er þetta allt löngu aflagt en gaman að skoða gömul ummerki. Papahellirinn þarna er miklu flottari en sá í Vatnsdal og umhverfið er gríðar fallegt. Við löbbuðum langt upp með Fiská og skoðuðum fossa og fallegar jarðmyndanir. Í Króki var bær sem hét Þorleifsstaðir, það var merkilegt að skoða hann eða leifarnar af honum og sjá fyrir sér gamla lífið eins og það var í sveitinni löngu fyrir mína tíð og nánustu forfeðra. Túngarðurinn náði víðan hring í kringum húsin og innan hans var heimatúnið. Við sáum gamla kálgarðinn sem var á öllum bæjum og traðirnar heim að bænum. Allt gróið en mjög sýnilegt. Við sátum góða stund þarna og virtum þetta fyrir okkur og létum hugann fara á flug. Börn að leik, sláttufólk að slá og sinna heyskap, hross í túni, förumenn á ferð ríðandi upp traðirnar, allt iðandi af lífi sem skildi eftir sig þessi glöggu merki sem við vorum að horfa á. Þetta var upplifun eins og myndaskot til fortíðar.
Gríðarlega gott móment sem við nutum bæði til ítrasta.
Það má segja að yndis Reykjavíkurmærin mín hefur lært að meta íslenska náttúru á annan hátt en þegar við kynntumst fyrst. Ísland er einstakt land sem heimurinn á eftir að uppgötva svo það er eins gott að njóta víðáttunnar og hreinleikans meðan allt þetta er til staðar jafn ósnert og það er.
Að lifa lífinu lifandi gott fólk, um það snýst þetta allt saman.
1 ummæli:
Yndislegur pistill og þetta hefur verið svaka skemmtilegur dagur! Efast ekki um það eina mínútu! :O) Þú ert skemmtilegur pennig skrifa vel! LU þín Eygló sem les blogigð þitt afar reglulega :)
Skrifa ummæli