Tíminn er ólíkindatól sem maður skilur öngvanveginn hversvegna rennur svona hraðar og hraðar til framtíðar. Verslunarmannahelgin var síðast um daginn en það er samt ár síðan! Það er enda farið að rigna en það virðist orðið lögmál að það rigni um þessa helgi.
Ég man eftir Kotmótum í gamla daga þegar ég var krakki þá var alltaf sól.
Mjólkurbrúsinn sem allir gátu farið í og fengið mjólk var hafður undir norðurveggnum á húsinu afa og ömmu svo sólin skini ekki á hann og hitaði mjólkina.
Þá voru dagarnir langir og mannlífið með rólegra yfirbragði en í dag. Kotmótin snerust um samkomur sem allir fóru á og svo samfélag þess á milli. Það komu kannski um 100 manns sem allir rúmuðust í litlu kirkjunni. Nú er annað yfirbragð og áherslur.
Við Erlan verðum með annan fótinn hér heima og sinnum ísbúskapnum en eins og allir vita eru ísbændur líkt og aðrir bændur bundnir yfir bústofninum sínum. Það þýðir þó ekki að við bregðum okkur ekki af bæ því fararskjótinn okkar verður notaður nokkuð óspart enda ekki langt að fara. Ættargrillið verður á sínum stað og við látum okkur ekki vanta enda annálaðir partígrísir.
Ég hef sagt og segi enn, farið varlega í umferðinni, það er betra að halda lífi en áætlun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli