laugardagur, júlí 02, 2011

Morgungestir

Ég fæddist með þeim ósköpum að vera alltaf heitt, eða svona næstum því. Ég er á Föðurlandi að vinna aðeins í kofanum okkar. það er kostur hér að það er auðvelt að hafa nógu kalt á næturnar fyrir minn smekk (og Erlunnar hin síðari ár).
Það kemur þó fyrir að ég gleymi að lækka í ofninum og þá verður hitastigið til þess að ég sef illa. Í nótt vaknaði ég og það var heitt, of heitt svo ég stökk á fætur og opnaði hurðina upp á gátt og sofnaði síðan alsæll við svalann blæinn sem kom inn um hurðina. Jaðrakinn var að vísu svolítið hávær en hann truflaði ekki nóg til að halda mér vakandi.

Það var ekki fyrr en ég heyrði eitthvað hljóð sem ég var ekki vanur, afar lágvært langdregið og ámátlegt gaul, ekki ólíkt falskri nótu í gömlu fótstignu orgeli og virtist vera mjög nálægt mér.
Ég sneri að hurðinni þegar ég opnaði augun varlega. Hljóðið var mjög varfærnislegt og kom úr hænubarka sem teygði hausinn inn um gættina og litaðist um í kofanum mínum.
Ég bauð henni góðan dag en við það brá henni svo svakalega að hún hentist afturábak út með bægslagangi og háværu góli og hljóp langa leið út á tún áður en hún svo mikið sem leit við og ekki nóg með það því vinkonur hennar hlupu með henni. Haninn hinsvegar stóð kyrr og kallaði hetjulega á eftir þeim að allt væri í lagi.

Þetta var brosleg og skemmtileg uppákoma, fín viðbót í flóruna hér, var ég að hugsa þegar laukst upp fyrir mér annar sannleikur varðandi hænsn. Þau skíta, og þau voru á pallinum mínum.

Það vildi til að klukkan var hálf sjö að morgni, veðrið var gott og trén stór því annars hefðu nágrannar mínir séð kallinn á naríunum einum saman á harðahlaupum á eftir hænsnahóp, út úr mínum garði takk hann er ekkert skítapleis.

Engin ummæli: