Það mátti litlu muna að við yrðum öskuteppt í danaveldi í þetta sinn. Þremur tímum eftir að við lentum í Keflavík var komið upp stórgos í Grímsvötnum. Tíu sinnum meira en Eyjafjallajökulsgosið var þegar það var mest sem segir að þetta er fítons. Eyjafjallajökull var nógu ófrýnilegur að sjá svo þetta hlýtur að vera ógnarlegt sjónarspil. Enda horfðum við á mökkinn hér út um eldhúsgluggann í gærkvöldi og fylgdumst með eldingunum og ljósaganginum... í 220 kílómetra fjarlægð lesandinn athugi það. Svo miðað við þessa miklu fjarlægð er ótrúlegt að nú skuli vera öskufall hér á Selfossi meira en kom nokkru sinni úr Eyjafjallajökli.
Ég verð samt að segja að ég vona að þetta verði skammvinnt og skaði ekki bændur og búalið eða ferðamennskuna sem á allt undir að fá útlendingana hingað í heimsókn. Mér sýnist samt að fréttaflutningurinn erlendis sé á betri nótum en var þegar gaus í fyrra. Nú virðist enginn hræðsluáróður vera í gangi, reyndar er sú hætta enn fyrir hendi að forsetinn tjái sig í erlendum fjölmiðlum um þetta svo maður veit ekki ennþá hvað verður.
Það er svo magnað að upplifa svona stórgos og sjá hvað við erum smá þegar náttúran byltir sér aðeins. Þetta er samt smágos miðað við alvöru stórgos þegar margir rúmkílómetrar ryðjast upp á yfirborðið. það væru hamfarir sem myndu hafa áhrif á hitastig á jarðarkringlunni næstu árin á eftir með kulda og vosbúð.
Heimsendir var ekki á dagskrá þótt gjósi hraustlega hér, allavega hef ég ekki saknað neinna sem ég þekki og eru þeir þó margir sannkristnir í gegn.
Það besta í stöðunni er að bíða af sér hamfarirnar og halda svo lífinu áfram eins og ekkert hafi í skorist, njóta þess í æsar... og geyma minningarnar í sögur handa barnabörnunum, passlega kryddaðar fyrir svefninn. Svo er rétt að hafa í huga þá einföldu staðreynd að það hefur enginn hugmynd um heimsendi hvað þá dagsetningu á honum, allar slíkar heimsendaspár eru sjúkleg hugvísindi rugludalla.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli