Það er manninum eðlislægt að líka vel við græna litinn. Það er vafalítið vegna þess að í gegnum árþúsundin höfum við komið okkur upp eðli sem er innbyggt án þess að við séum meðvituð um það. Ég held að þetta sé sama og á við um eld en það er viðurkennt að eldur hefur afar róandi áhrif á mannskepnuna. Eldurinn þýðir yl og öryggi sem á rætur einhversstaðar djúpt inni í sálinni, samansafn reynslu liðinna forfeðra okkar sem ornuðu sér við eld og fældu burt villidýr með honum í leiðinni.
Græni liturinn hefur þessi sömu áhrif á sálina. Róandi áhrif sem ekki er hægt að útskýra á neinn annan hátt en að tilfinningar forfeðranna hafa mótað genin þannig að þegar náttúran er græn þá er nóg að borða og tilveran vænni en um harðavetur.
Af hverju annars ættum við að finna þörf á vorin til að komast út í náttúruna til að baða okkur í græna litnum og sólinni.
Það er ekki bara sveitamaðurinn í mér sem lætur svona. Ég held að þetta eigi sér langtum dýpri og eldri rætur, þetta er frummaðurinn í okkur...
Þá vitið þið það, svona líka vísindalega útpælt...!
Gerið eins og ég krakkar, njótið tilverunnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli