Við áttum gæðadaga í fljótslíðskri sveit um helgina. Fuglasvermur skreytir tilveruna þar sem endranær á þessum árstíma. Maríuerla virtist nærgöngulli en áður sem gefur fyrirheit um að kannski hefur hún ákveðið að gera mannabústaðinn okkar að íverustað sínum meðan hún fjölgar ættleggnum sínum, það væri gaman. Þrastarsöngurinn ómaði allan daginn enda þrestir orðnir fastagestir hjá okkur. Þeim líkar vel við trén sem við höfum gróðursett undanfarin 23 ár sem eru orðin stór og bústin svo kofinn næstum hverfur í skóginn.
Hann er reyndar ekki stór, allavega ekki á fljótshlíðskan mælikvarða en eins og flestir vita er Fljótshlíðin vinsæl undir sumarhús sem hafa risið hratt á undanförnum árum. Nokkur eru á við stærðar einbýlishús, sum eins og spænskar hallir, önnur eru hóflegri, svo eru nokkur í okkar stíl, fjallakofastílnum.
Allir sem lesa bloggið mitt vita að ég er hæstánægður með kofann minn þó hann sé lítill. Það hefur ekki með stærð að gera hvort hægt sé að finna kyrrð sveitarinnar eða njóta fuglasinfóníunnar og fallegu tónanna hennar. Ég held jafnvel að auðveldara sé að samsama sig náttúrunni ef maður temur sér auðmýkt og nægjusemi sem er ráðandi afl í náttúrunni. Það er bara maðurinn sem hefur sett sig á þann drambsama stall að gera kröfur umfram þarfir sínar.
Við sátum í morgun úti við og nutum verunnar til ítrasta, létum sumarblæinn strjúka vanga og hlustuðum á tindrandi lífið allsstaðar í kringum okkur. Hrossagaukurinn klauf loftið með sínum skemmtilegu víbrandi tónum og Spóinn vall í kapp við hann.
Erla dæsti af ánægju og sagði við mig hægt og hljótt til að trufla ekki mómentið: "Erling þetta er yndislegt" og það er heila málið. Lífið er yndislegt og full ástæða til að njóta þess meðan við höfum heilsu og hvert annað.
Höfum það sem vegarnesti.
1 ummæli:
Æðislegt! Þetta var notalegur pistill að lesa :) Þín Eygló
Skrifa ummæli