þriðjudagur, maí 17, 2011

Andlátsfregnin var stórlega ýkt...

...en þau voru seint á ferðinni. Nína og Geiri eru mætt í hólmann sinn. Þau láta lítið yfir sér og eru ólík því sem áður hefur verið einkennandi fyrir þau. Þau dansa ekki á vatnsfletinum eins og áður heldur eru þau daufleg og sitja saman þegjandi nálægt óðalinu sínu.
Það er eins og þau séu þreytt enda líklega háöldruð. Hreyfingarnar eru hægar en virðulegar. Það tók þau miklu lengri tíma en áður að komast yfir hafið, sennilega er ellikerling að heimta tollinn sinn og kannski eru þau að fara síðustu ferðina sína til átthaganna.

Ég sagði ykkur að sagan þeirra væri fallegt ævintýri sem gaman hefur verið að fylgjast með og mér segir svo hugur að nú húmi að kveldi hjá þeim. Kannski eru þau að horfa á sólarlagið sitt og stilla taktinn fyrir síðustu skrefin.

Það var samt gaman að sjá þau mæta á staðinn sinn og fylgjast með þeim einu sinni enn og sjá hvernig álftalíf er í raun ekkert síðri framhaldssaga að fylgjast með en annað sem á dagana drífur.

Engin ummæli: