Það var gott hjá honum að verða brjálaður. Askan sem féll á suðurlandið, allavega vestanvert hefur fokið á haf út í rokinu sem gerði eftir öskufallið og nú er komin grenjandi rigning. Já við Kári erum vinir. Landið okkar kemur strokið og fínt undan þessum látum. Askan verður fínn áburður á túnin og líklegast er að túristum fjölgi ef eitthvað er. Kannski verður þetta eftir allt túristagos í óeiginlegri merkingu.
Ég skrapp austur í dag með stólana úr Íslandus ísbar. þeir voru að liðast í sundur svo þeir voru teknir til alvarlegrar aðhlynningar, rafsoðnir saman og gegnumboltaðir. Nú mega stórir og smáir setjast í þá án þess að eiga á hættu að þeir brotni undan þeim.
Fljótshlíðin skartaði sínu fegursta, hvergi var ösku að sjá og hunangsflugurnar suðuðu í vorblómguðum brumum. Það var eitthvað svo ánægjulegt að sjá hvernig náttúran sjálf hefur tekið til hendinni í öskumálunum, litlir eftirmálar.
Við hjónin vorum á síðum viðskiptablaðs Moggans í dag. Íslandus ísbar virðist vera sífellt meira að komast á kortið, þeir höfðu einhverja nasasjón af okkur af markaðnum því ekki báðum við um þetta viðtal.
Nú fer vonandi að vora hjá okkur en vorið hefur verið á seinni skipunum þetta árið og kominn tími á betri tíð. Allir sammála því?
Njótið samt tilverunnar því hún er góð og Ísland er besta land í heimi ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli