Það telst ekki í frásögur færandi að ég sé að flækjast um landið. Í veiðiferðinni um síðustu helgi, arkandi lengst uppi á fjöllum rakst ég á klett. Jú fjöllin eru endalausir klettar en þessi ásamt fleirum þarna í kring hafði skrifað sögu, sem ég gat lesið notabene. Auðvitað er náttúran eitt allsherjar sögusafn en það er sjaldnast sem leikmenn eins og ég geta rýnt í það með nokkrum skilningi.
Þessi klettur var slípaður að ofan og rákaður eftir ísaldarjökul og það sem vakti athygli mína og framkallaði ótrúlega mynd í kollinum, í senn ógnvekjandi og óraunverulega, var stefna rákanna. Klettarnir voru í suðurhlíðum Tindfjalla og því hefði verið eðlilegt að rákirnar sneru niður hlíðarnar frá norðri til suðurs en þær sneru allar í vest- suð- vestur þvert á hliðar Tindfjalla.
Myndin sem þessar rúnir kölluðu fram blasti við, þetta mikla landsvæði sem ég horfði yfir, frá Tindfjöllum að Eyjafjallajökli, var einhverntíman sneisafullt af gríðarlegum skriðjökli sem skreið þessa stefnu langt út á haf... og eirði engu, Fljótshlíðinni ekki heldur.
Það stóð ekki skýrum stöfum á klettinum að sagan endurtekur sig. Við vitum það bara af jarðarsögunni að ísaldir koma og fara á nokkurra ártugþúsunda fresti. Ísöld á eftir að færast yfir aftur, og svo enn aftur. Allt sem við höfum fyrir augunum í dag hverfur einn daginn og mannskepnan, sem trúir því að hún stýri veraldarsögunni, hvað verður um hana... ég veit það ekki, allavega verður hún ekki á Íslandi svo mikið er víst.
Við erum víst bara peð á þessu taflborði, agnarlítil peð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli