Allskyns skríkjur, dýrahljóð og brambolt ómar af efri hæðinni, þar er barnaskarinn, og í eldhúsinu er skrafað og hlegið í takt við kveinið í hrærivélinni sem rembist við að hakka lifrar, nýru, þindar og annað tilfallandi sem troðið er ofan í hakkavélina. Sláturdagurinn mikli sem við höldum einu sinni á ári er í dag.
Það er eins og oft áður þegar við komum svona öll saman að ég fæ einhverja nostalgíu og hugurinn rifjar upp gamlar tíðir þegar þessu líkar uppákomur voru í sveitinni minni forðum, sama skvaldrið og lífsgleðin, sem endar með að allir setjast til borðs og njóta afraksturs dagsins.
Slátur er vinsælt hjá mínu fólki þó það sé á undanhaldi hjá ungu fólki í dag. Þetta er kannski ekki hollasta vara sem finnst en samt er þetta það sem hélt lífi í forfeðrum okkar. Uppskrift mömmu er í hávegum höfð en hún hafði sérstaka hæfileika til að blanda hráefnunum rétt saman en það skiptir sköpum að hafa hárrétta bragðið af þessu. Ég er ánægður með að þessi siður helst við í minni ætt.
Þessa vikuna hef ég verið að smíða úti í búð. Opnun nýju búðanna er handan hornsins. Home design búðin verður opnuð á undan ísbúðinni, já Home design er nafnið á henni og vísar til varanna sem verða til sölu. Við erum búin að panta ýmsar vörur sem verða til sölu hjá okkur. Uppistaðan í vöruúrvali verða "Lín design" vörur en við verðum eina búðin á suðurlandi sem selur þær vörur.
Undirbúningur fyrir opnun sjálfsafgreiðslu ísbúðarinnar er líka í fullum gangi. Það er í mörg horn að líta en mér líkar það vel.
Lífið er til að njóta þess, látið það eftir ykkur gott fólk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli