Það má kallaða það. Ég skrapp austur á Föðurland til að loka þakinu á millibyggingunni á kofanum. Ég ætlaði að vera búinn að opna á milli fyrir veturinn en það verður nú ekki svo gott. Ég verð samt að loka þakinu fyrir veturinn því þá get ég notað dauðan tíma í vetur til að skjótast hingað og vinna því þetta verður orðið innandyra þegar þakið er orðið regnhelt. Það rigndi á mig í dag... í meira lagi svo ég gerði ekki eins mikið og ég ætlaði, en svona er bara lífið það skiptast á skin og skúrir, ætla að reyna að klára þetta á morgun.
Ég verð að viðurkenna að það er kósý að krota nokkrar línur um lífsins gang svona undir arineldi eins og gjarnan er hér. Það vantar bara Erluna mína til að fullkomna þetta.
Það eru breytingar í farvatninu varðandi Íslandus ísbar. Við erum að undirbúa að gera þetta að sjálfsafgreiðsluísbar líkt og Yoyo og Joger. Við munum gera þetta í samvinnu við Emmessís undir vörumerkinu Joger. Við munum bjóða áfram upp á rjómaísinn okkar og "gamla ísinn" en að auki verðum við með nýja tegund jógúrt íss með mörgum bragðtegundum sem er að slá í gegn fyrir norðan og reyndar í Kringlunni líka. Þetta er afar ferskur og bragðgóður ís og er hrein hollusta því hann er hvorttveggja sykur- og fitulaus eða því sem næst.
Það verður spennandi að prófa þetta en viðtökurnar norðan heiða gefa okkur ástæðu til að þetta muni falla í geð hjá viðskiptavinum okkar hér sunnan heiða. Við þessar breytingar verður til þriðja verslunarplássið í húsinu því svona fyrirkomulag krefst ekki sama pláss og við notum núna svo við munum skipta upp húsnæðinu. Við erum ekki alveg búin að ákveða hvað verður sett í það pláss en það verður eitthvað sniðugt.
Eldurinn er að kulna í arninum og kominn tími á að skutla sér í koju að sjómannasið... er reyndar eins langt frá því að vera sjómaður og hægt er að komast, ég nota aðrar veiðiaðferðir. Ég ætti frekar að segja að tími sé kominn til að halla sér því morgundagurinn verður tekinn snemma eins og bænda er siður en ég er bóndi eins og allir vita... framleiði og sel mjólkurafurðir, í frosnu formi.
Jæja ég er hættur þessu. Njótið haustsins gott fólk, það er fallegur tími og bráðum kemur vetur, þá er tími kertaljósanna og jólin...! já lífið er gott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli