Fyrir áratug eða svo fórum við Erlan og Hrund í veiðitúr ásamt vinafólki okkar í Heiðarvatn í Mýrdal. Við veiddum engin ósköp en ég hitti þar menn sem voru öllum hnútum kunnugir og þeir sýndu mér veiði sem kveikti rækilega í mér. Stærðar sjóbirtingar 80 - 90 cm. og laxar sem þeir höfðu fengið þá um kvöldið og nóttina. Þeir sögðu mér að vatnið og Vatnsáin sem rennur úr því út í Kerlingardalsá væru veiðiperlur sem of fáir vissu um, líkt og sjá mátti af veiðinni þeirra.
Stuttu seinna fréttist að svissneskur auðmaður hefði keypt þær þrjár jarðir (frekar en tvær minnir mig) sem tilheyra Heiðardalnum og eiga vatnið og ána. Ég hringdi í bóndann á Litlu Heiði sem nú var orðinn leigutaki Svisslendingsins og spurði um veiðileyfi. Hann sagði mér að eigandinn væri búinn að loka fyrir alla veiði og myndi ekki heimila neina veiði í vatninu um nánustu framtíð.
Það þótti mér súrt að erlendur auðmaður gæti keypt svona upp heilt landsvæði og vatnið og ána með og lokað því af því að honum datt það í hug si svona.
Nú vill kínverskur auðmaður kaupa stærstu jörð Íslands sem nær yfir 0.3% af landinu okkar. Hann vill byggja upp atvinnu á þessum landsvæðum og fjárfesta fyrir mikla peninga. Sá þáttur í málinu er góður því okkur vantar peninginn en eignarhaldið er annað mál. Eignarrétturinn er svo ríkur að ef honum sýnist svo þá getur hann lokað þessum parti landsins fyrir almenningi bara ef honum dettur það í hug, rétt eins og þeim svissneska datt í hug að loka Heiðarvatni.
Komið hefur fram að hann á sæg af peningum og hefur þannig enga þörf beinlínis til að þessi fjárfesting skili honum arði. Hann getur m.ö.o. gert þetta að sinni einkaparadís bara ef hann er í þannig skapi einhvern daginn.
Það getur vel verið að mörgum finnist þetta viðkvæmni í mér en það verður að líta til framtíðar og eignarhald er eðlis síns vegna ótímasett. það er ekki víst að barnabörnin okkar kunni okkur miklar þakkir þegar þau fullorðnast og búið er að selja ríkum útlendingum jarðir á kippum á landinu okkar og takmarkanir á nýtingu þess og umferð í samræmi við það.
Í mér er það mikil þjóðremba að ég vil ekki að útlendingar eignist landið og ráðskist með það líkt og Heiðarvatnið, þá er besta forvörnin að hætta áður en við byrjum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli