Það er víðar fallegt en á Íslandi, það verður að viðurkennast að Austurríki stendur nær jafnfætis okkur í náttúrufegurð, bara öðruvísi. Við vorum að koma úr vikufríi sem við eyddum þar á vegum Bændaferða.
Landið er eitthvað það fallegasta sem ég hef augum litið og hrikaleikinn í fjöllunum er engu líkur. Við vorum í Tirola héraði Austurríkis þar sem jóðlið og harmonikkan skipa hásæti í tónlistinni. Þó fórum við á tónleika stórsveita þar sem blásturshljóðfærin voru þeytt með snilldartöktum og innfæddir skemmtu sér eins og þeim einum er lagið, spilararnir gengu um á meðal gesta og stukku upp á borð og spiluðu hver í kapp við annan af mikilli innlifun.
Það er ekki hægt annað en að heillast af þessu fólki. Lífsgleðin og kátínan virðist þeim svo eðlileg, svo kunna þeir að drekka bjór sem þeir kneyfa af mikilli list án þess að verða drukknir, en við sáum ekki vín á nokkrum manni.
við Erlan nutum verunnar þarna í botn enda annálaðir náttúrudýrkendur. Við heimsóttum Arnarhreiðrið sem Hitler lét gera árið 1938, það var heilmikil upplifun. Svo tókum við kláf í 2000 metra hæð og þar voru kýr á beit, en merkilegt nokk þá var þarna grösugt og fínt beitarland og útsýnið var stórkostlegt. Myndin er tekin við Arnarhreiðrið.
Kúasmölunarhátíðin, sem er karnival í tilefni þess að bændur koma með kýrnar úr seljum þar sem þær eru hafðar fjóra sumarmánuði á ári, var skemmtileg og mikið fjör.
Tirolatónlistin ómaði og heimamenn og konur í þjóðbúningum settu skemmtilegan svip á hátíðina. Bestu kýrnar komu svo til bæjarins skreyttar með blómum og bjöllum og stoltir eigendur þeirra fylgdu þeim í gegnum bæinn, sumir á ævagömlum traktorum sem voru líka skreyttir. Þetta er sveitafólk sem greinilega ber mikla virðingu fyrir landinu og náttúrunni því snyrtimennskan er ótrúleg allsstaðar. Hvergi að sjá drasl, varla karamellubréf. Húsin þeirra eru flest skreytt með litskrúðugum blómum og eru reisuleg, yfirleitt tveggja til þriggja hæða með stórum svölum og gjarnan útskornum þakköntum, gríðarlega flott.
Það var gaman að upplifa þetta allt og það skemmdi ekkert að við þekktum nokkra í hópnum sem við endurnýjuðum kynni við og kynntumst nýju fólki. Bændaferðir er ferðaskrifstofa sem ég mæli hiklaust með.
Gamall skólabróðir minn, Bjössi í Teigi, var fararstjóri í ferðinni. Hann gerði þetta vel og það var gaman að kynnast honum aftur, ljúflingur þar á ferð.
Mánudagur á morgun og alvaran tekur við á ný.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli