sunnudagur, október 04, 2009

Allt fram streymir....

... endalaust, ár og dagar líða, nú er komið hrímkalt haust, horfin sumarblíða. Mér finnst nú frysta full fljótt þetta árið verð ég að segja. Við erum búin að fara einu sinni í bæinn í vetrarófærð.
Ég sem á eftir að fara í allavega eina veiðiferð. Ég er að vona að ég fái góðan dag í veiðina en sæmilegt hitastig getur gert útslagið.
Hvað sem haustinu líður þá fer vel um okkur hér í húsinu við ána. Það má segja að hver árstíð gæli við okkur á sinn hátt. Núna eru litir haustsins gríðarlega fallegir þó það verði fljótt að breytast héðan í frá. Veturinn fer að taka yfir.

Hér verður mikið líf og fjör í dag. Sláturdagurinn mikli er í dag. Ég keypti 20 slátur í fyrradag fyrir okkur og stelpurnar. Nú á að reyna að finna réttu samsetninguna með uppskrift sem ég fékk hjá Gerðu systir sem kemst sennilega næst því hvernig mamma gerði slátrið. Mamma var einstaklega lunkin við að gera bragðgóðan mat. Það var eins og hún hefði sérstakt innsæi í það hvernig blanda ætti saman hráefninu til að það bragðaðist vel.
Er ekki alveg frá því að það eymi af þeim hæfileika í genabankanum okkar systkinanna. Allavega eru systur mínar snjallir kokkar.
Ég hlakka til í kvöld en þá verður auðvitað sett upp slátur í pott og haldin uppskeruveisla.
Njótið daganna gott fólk.....

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir complimentið litli bróðir -og ég held bara sveimérþá að strákarnir hafi fengið sinn skerf að kokkahæfileikunum líka:)