sunnudagur, maí 29, 2005

Ísland í bítið....

Ísland er land þitt, því aldrei skalt gleyma.... Eftir annasaman dag í gær við flísalagnir og málningarvinnu, fékk ég símtal frá Hlyn bróður mínum. Hann var að fara í eggjaleiðangur og bauð mér með. Við höfum gert þetta árlega í mörg ár. Afraksturinn var góður og verður nú eggjaveisla næstu daga á mínum bæ. Þessi egg eru ekki eins og venjuleg hænuegg, heldur miklu bragðmeiri og betri. Er t.d. núna í þessum skrifuðu orðum að sjóða mér nokkur, þetta er sennilega gamli sveitamaðurinn í mér, eða hellisbúinn.
Ekki var þetta nú öll sagan gærdagsins, því í gærkvöld þegar eggjatúrinn var að klárast, hringdi Danni bróðir minn og dobblaði mig í silungsveiði í nótt. Auðvitað fór ég. Kom heim í morgun með öngulinn í rassinum en ánægður samt. Varð áhorfandi af lífinu eins og það gerist fegurst hér á jörð.
Iðandi líf vorsins við sólarupprás á svona morgni er ótrúleg sinfónía. Eldrauðir geislar morgunsólarinnar fylla austurhiminninn og spegla vatnsflötinn sem tvöfaldar þannig iðandi flóruna sem allsstaðar sér.
Að horfa á eftir andahóp fljúga inní morgunroðann yfir spegilsléttum fletinum er ekki neinu líkt. Þetta er eins og að horfa á eitthvað Guðlegt, það er eins og þær fljúgi inn um dyr Paradísar, yfirnáttúruleg umgjörð sem maður hefur ekki orðaforða til að lýsa. Á svona augnablikum mætti tíminn doka ögn við og gefa manni færi á að njóta lengur. Hér er ekki pólitík, hér er ekki verið að takast á um þýðingar, merkingar eða túlkanir á Guði, það þarf ekki. Hér er það sköpunin sjálf sem auðmjúk lofar skaparann, án alls, en samt með allt. Án bókvits, en veit samt miklu meira en við.

Svona stundir eru heilagar í mínum huga. Sköpunin að flytja óð skapara sínum, tón- og myndverk sem manninum mun aldrei takast að herma.
Á svona hegistund er ekki pláss fyrir annað en auðmýkt. Maður stendur bara opinmynntur, hlustar þegjandi, tekur ofan hattinn sinn og leyfir sér að bráðna saman við náttúruna og verða hluti af þessu öllu saman.

Það var gott að koma heim. Þar er best. Það var eins og Erlan mín skynjaði að ég væri kominn, því um leið og ég lagðist út af, skreið hún sofandi í fangið á mér, án þess að vakna.....
Hún er yndigull.

4 ummæli:

Íris sagði...

Hljómar ekkert smá æðislega!! Gaman að nota sumarið og góða veðrið svona vel!!!

Nafnlaus sagði...

Ef það er ekki bara tár að renna niður kinnina.... Arna

Nafnlaus sagði...

Síðustu línurnar voru bestar.Kv,Kata

Íris sagði...

Hah!! Ég var nr. 4600 ;)