fimmtudagur, júní 02, 2005

Hvað þýðir það eiginlega?

Átta mig ekki á því. Evrópustjórnarskráin líka felld í Hollandi. Þetta plagg upp á þúsundir blaðsíðna sem búið er að eyða ómældum milljörðum í er bara felld.
Ég held þetta hafi meiri áhrif en margan grunar. Þetta var órjúfanlegur þáttur í Evrópusamrunanum.
Ferlið mun stoppa. Einsleitnihugtakið sem allt gengur út á hefur beðið hnekki. Fólkið sjálft hefur sagt stopp, hingað og ekki lengra. Þetta er líkt og púðurtunna hafi sprungið, menn standa sótugir í framan, klóra sér í kollinum og spyrja, hvað gerðist?
Það verður spennandi að sjá hvert útspilið verður eftir þetta.

Varð hugsað til þeirra íslendinga sem vilja ólmir sækja um inngöngu í ESB og halda að við séum svo merkileg þjóð að risarnir þagni bara og sperri eyrun þegar rödd okkar kveður við. Það er fyndinn sjálfbirgingsháttur, en verður ekki lengur fyndinn ef þeir sem þetta kjósa komast til valda í íslenskri pólitík.
Mér hefur skilist að Svíar sem hafa verið í Evrópusambandinu frá 1995 kvarti sáran yfir þessari ákvörðun sinni. Afhverju? Þeir segjast vera svo litlir að rödd þeirra hafi ekkert vægi þegar þeir þurfa að gæta hagsmuna sinna.

Fall stjórnarskrárinnar er kannski samt ljós í myrkri. Norðmenn hafa lýst því yfir að áhugi þeirra hafi minnkað til muna til inngöngu eftir þessa útreið. Vonandi er sama uppi á borðinu hjá Evrópusinnum hér heima.

Engin ummæli: