Guðsmennirnir. Á umræðusíðum Moggans eru þeir enn að senda hvor öðrum skeytin Gunnar Þorsteinsson og Bjarni Karlsson. Örvarnar fljúga á víxl. Þeir ásaka hvor annan um fals og rangindi.
Hvor þeirra hefur rétt fyrir sér, það skilur þá haf og himinn. Annar fylgir bókstafnum hinn gefur hugmyndafluginu færi, og túlkar ritninguna, en reynir að hanga í meginboðskapnum. Fólk sem fyrir utan stendur horfir á aðfarirnar í forundran . Eru þetta prestarnir okkar!
Alveg er ég sannfærður um að fátt sé Guði ógeðfelldara en svona skylmingar.
Allavega er nokkuð ljóst að meðan menn eru uppteknir af svona pólitík eru þeir ekki uppteknir við það sem meira skiptir fyrir stöðu þeirra beggja, að vera hendbendi Krists inn í líf fólks með framkomu sinni og orðum. Líkt og Kristur var sjálfur.
Ætli sé líklegt að svona nokkuð fái fólk til fylgis við kristna trú? Er þetta þessi hreini og falslausi náðarboðskapur um kærleik og fyrirgefningu sem Kristur kom með. Svari hver fyrir sig.
Kannski er það einmitt þetta sem gerir að kristni er á miklu undanhaldi. Ætli þessir menn og aðrir í þeirra stöðu, spyrji sig aldrei hverju það sætir. Kristin trú með náðina í fararbroddi er nefnilega gull í gegn í kjarna sínum og eðli. Það má hinsvegar misnota flest.
Ég held ég hrópi húrra fyrir hvorugum, lýsi þess í stað óánægju minni með þessa misnotkun á fagnaðarerindinu. Þeir eru ekki að kristna neinn með þessu. Ég held reyndar að skotin þeirra veiki undirstöður kristninnar í landinu. Á meðan svo er, er bara einn sem skemmtir sér og hlær.
Púkinn á fjósbitanum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli