sunnudagur, febrúar 11, 2007

Iðrun...

...er stórt orð sem fólk lætur skipta sköpum þegar það fyrirgefur öðrum. Ég rak tána svo illa í að lá við að ég missti fótana þegar það hljómaði til mín á öldum ljósvakans að Guðmundur í Byrginu “iðraðist einskis”.
Það má eiginlega segja að ég hafi tekið upp steininn aftur. Það er okkur öllum sameiginlegt að gera mistök. Auðvitað mis alvarleg og afleiðingarnar þ.a.l. líka mis alvarlegar.
En þegar menn misnota aðstöðu sína svona gróflega og níðast á þeim sem minna mega sín eins og raunin virðist með Guðmund og hans preláta, þá krefst ég iðrunar til að sleppa steininum mínum aftur.
Enda má segja að iðrunin sé það eina sem getur skotið Guðmundi undir réttlætingu náðarinnar svona ef maður fer í andlegu deildina.

Kannski Byrgismenn flokki þetta undir tæknileg mistök eins og Árni Johnsen sem uppskar reiði almennings fyrir.

Allt að einu finnst mér grafalvarlegt mál ef hann iðrast einskis, horfandi á illar afleiðingar gjörða sinna. Verst fyrir hann sjálfan þar sem hann þarf virkilega á fyrirgefningu að halda, þjóðarinnar allrar og ekki síst þessara vesalings fórnarlamba sem urðu fyrir barðinu á honum.
Nema hann sé kannski svona yfirmáta óheppin í hausnum og siðblindur að hann skorti dómgreind til að sjá helkaldan raunveruleikann í þessu máli. Heimsku er stundum hægt að fyrirgefa, jafnvel yfirmáta heimsku, á þeirri forsendu að enginn gefur sér vitið sjálfur.
Kannski er það málið, allavega ljómaði manndómsviskan ekkert af honum, þannig að maður fengi ofbirtu í augun, meðan náðist í hann.

Að jákvæðari nótunum.... þá vorum við Erla á árshátíð Samhjálpar í gærkvöldi. Það var virkilega vel heppnuð hátíð með ýmsum uppákomum. Þjóðkirkjuprestur séra Karl Matthíasson var veislustjóri, fór á kostum. Valgeir Guðjónsson tróð upp, flott. Hluti “vinir Dóra” fluttu blús, snillingar þar á ferð. Guðni Már og félagi hans Freyr sungu og töluðu söngva, sérstakt og flott hjá þeim. Þollý blúsaði, svo var málverkauppboð o.fl.
Flott kvöld. Við skemmtum okkur vel.
Erlan var að koma niður fyrst núna. Ég er búinn að eyða morgninum hér niðri eins og vanalega, í kyrrð og rómantískri fegurð út um gluggann minn.
Ég virkilega nýt lífsins.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert sannarlega lukkunnar pamfíll vinur minn. Það er gott að þú kannt að njóta lífsins - til þess var okkur það gefið. Hlakka til að flytja nær þér. Kær kveðja, Teddi.