sunnudagur, febrúar 04, 2007

Mætti góðum vini í dag....

á leiðinni austur í Kot. Kastaði ekki á hann kveðju en hugsaði hlýlega til hans um leið og ég rauk framhjá. Hugsa alltaf hlýlega til hans þegar ég minnist hans, sérstaklega þegar ég mæti honum á förnum vegi. Hann þekkir mig ekkert enda hugsunarlaus með öllu. Mjór og renglulegur stendur hann samt alltaf sína vakt og sinnir starfi sínu hvern einasta dag af mikilli trúfesti.
Hann er kaldur eins og járn og harður eins og steinn...enda úr járni. Hann heitir því virðulega nafni “venjulegur ljósastaur” og stendur alltaf við eystri brúarendann á Ytri Rangá.
Þið getið séð hann þegar þið keyrið austur, fyrsti staur austan við brú.

Hann bjargaði lífi mínu einu sinni. Þessvegna hugsa ég alltaf svona hýlega til hans.

....Ég var á leið í bæinn eftir vinnudag fyrir austan. Það var janúar og mikið frost. Vegurinn var algjörlega þakinn niðurpressuðum snjó, svo ekki sást á dökkan blett.
Á undan mér ók Lada sport jeppi á sama hraða og ég, tæplega hundrað. Þegar við komum að Hellu var lítið hægt á enda engir bílar á götunum.
Gott bil var milli okkar svo þegar ég sá að hann ætlaði að beygja inn í kauptúnið til hægri tók ég stefnuna framhjá honum vinstra megin. Skyndilega beygir hann til vinstri, löturhægt, sömu átt og ég ætlaði framhjá....................!
Hálkan var meiri en ég hélt og þótt ég bremsaði hægði lítið ferðina. Ég sá að ég mundi lenda á honum á fullri ferð. Ég tiplaði á bremsunni og reyndi að beygja aftur til hægri til að sleppa við hann.
Ég rétt strauk á honum afturendann, slapp, en var kominn nánast þversum á hálum veginum þegar ég þaut framhjá honum. Mér tókst að snúa stýrinu það hratt að bíllinn réttist við en það gerðist svo hratt að hann fór hálfhring og rann nú á fullri ferð, hliðarskriði, með mína hlið á undan og stefnan, beint á ljósastaur (vin minn) og Rangá ísköld á bakvið hann.
Ég sá fram á stórslys þar sem öxlin á mér stefndi rakleitt á staurinn. Einu augnabliki áður en ég skall á staurnum snarsnerist bíllinn þannig að framendinn fór fremstur,

og KKKKRRAAASSSSSSSSS.....

Þvílíkt höggið!
Hávaði og svo dauðaþögn. Staurinn stóð sjötíu sentimetra inni í vélinni. Ryk í loftinu og ég sitjandi að kanna sjálfan mig hvort ég hefði meitt mig. Ég reyndi að opna hurðina en hún var blýföst. Hurðin farþegamegin opnaðist og ég kom mér út.
Fólk kom hlaupandi úr sjoppunni, hélt að þetta væri stórslys, jafnvel dauðaslys.
Ég var góða stund að sannfæra viðstadda um að ekkert amaði að mér.

Bíllinn var handónýtur, ég stráheill. Staurinn “vinur minn” stoppaði mig í að fljúga út í miðja Rangá, það var sextán stiga frost og ísrek í ánni. Hefði ekki þurft að spyrja um sögulok hefði það gerst.
Sama má segja ef staurinn hefði farið í hliðina á bílnum, eins og hefði átt að gerast, og farið jafnlangt inn í bílinn eins og hann fór inn í framendann þá hefði staurinn staðið uppúr miðju farþegasæti. Þá hefði ekki heldur þurft að skoða sögulok, ég væri ekki að segja þessa sögu núna.

En hver það var sem sneri bílnum rétt áður en ég lenti á staurnum er spurning sem enn er ósvarað, þó ég hafi skoðun á því sjálfur.
Hann var mér hollur sá sem hlífir, fyrir það er ég ævarandi þakklátur.

4 ummæli:

Íris sagði...

Já, ég get alveg verið sammála þér með hver það var sem snéri bílnum. Svo er ég einnig mjög svo þakklát fyrir þennan staur.
Rosalegt samt að rifja þetta upp. Allsvakalegt!
En gott að það er hægt að segja frá þessu og gleðjast yfir að ekkert kom fyrir.
Eigðu góðan dag í dag!
Íris

Íris sagði...

Og já, hvað er eiginlega langt síðan þetta gerðist??

Erling.... sagði...

Þetta var árið 1990 ef ég man rétt.

Eygló sagði...

Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessa sögu áður! Þetta hefur verið alveg rosaleg lífsreynsla! Ég myndi vilja sjá þennan staur, en ég er sammála ykkur með hver sneri bílnum.. :) Guð er góður! Elska þig pabbi minn. Þín dóttir Eygló! Við höfum ekkert smá þessum staur að þakka fyrir!