fimmtudagur, janúar 19, 2006

Allt tekur enda...!

Ég hef alltaf gaman af veðrinu þegar það lætur illa, eins og í liðinni viku. Það var samt einkar ljúft að lesa um norðangarrann og snjóbyljina hér heima meðan maður dundaði við að kæla sig og sólbrenna ekki á eyjunni grænu.
Það var búið að rigna mikið á undan okkur svo allur gróður var safaríkur og fagurgrænn. Ótrúlegur munur á þessu og skrælnuðum og kyrkingslegum runnum, sem er öllu venjulegra þarna suðurfrá.
Meira að segja nýtýndar appelsínur báru rekjunni vitni, gersamlega að springa af safa. Við vorum samt svo heppin að sólin skein glatt meðan við dvöldum þarna. Hitastigið hærra en við höfum áður kynnst og lygnara.
Þetta var hreinræktuð sólarferð.

Þetta var virkilega gott og endurnærandi að sleikja notalegheitin svona í heila viku, og aðeins að leika sér með bragðlaukana. Þeir kunna ágætlega að steikja naut þarna. Fékk mér einu sinni fisk, túnfisksteik, hélt að það væri miklu betra, þarf ekki að prófa það aftur. Nema kannski ef ég steiki hana sjálfur.
Eins og ég sagði ykkur varð Erla 36+ þarna úti og allir sem hana þekkja vita að meira afmælisbarn er vart að finna, svo við gerðum ýmislegt til dægrastyttingar í tilefni dagsins. Keyrðum víða og skoðuðum margt, fórum í búðir (sem henni þótti skemmtilegast, held ég) Enduðum svo daginn með Hlyn og Gerði á Las Brasas með "T-bone¨ og "lund" að hætti hússins.

Okkur brá svolítið þegar við lentum í Keflavík og föttuðum að við höfðum gleymt Hlyn og Gerði suðurfrá. Þau eru sem sagt enn í sólinni. Ef þið lesið þetta Hlynur og Gerður þá þurfið þið að hringja í okkur því við verðum einhvernveginn að ná ykkur heim. Spáin næstu vikuna var þvílik (svona án gríns) að þau ákváðu að framlengja um eina viku, bara sól í kortunum.

Ég fór auðvitað í skólann í morgun og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið. Komst að, mér til gremju, að yfirferðin meðan ég var í burtu var mikil og verð ég því að lesa tvöfalt, eitthvað frameftir.
En það er alltaf gott að koma heim í okkar ísaland, þótt hann blási stundum köldu. Ísland er best í heimi hvernig sem á það er litið.

Ég var að horfa á eftir yngstu dótturinni aka hér út innkeyrsluna... ein í bílnum. Hrund fékk sem sagt bílpróf í dag og þurfti aðeins að snattast fyrir föður sinn. Henni gekk mjög vel bæði í skriflega og verklega prófinu - TIL HAMINGJU Hrundin mín. Guð varðveiti þig og haldi alltaf í stýrið með þér í umferðinni .....!
Við vorum að borða saman stórfjölskyldan. Gott að finna samheldnina og væntumþykjuna hjá fólkinu sínu. Meira að segja minnstu krílin virðast njóta sín umvafin sínu fólki, gaman að sjá hvernig þau samsama sig stórfjölskyldunni og verða hluti af okkur - þetta er mitt fólk.
Það er gott að koma heim í svona ríkidæmi.

Góðir hálsar! Njótið daganna, komið að lestri hjá mér.....!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa pistilinn þinn :) Og já það var ótrúlega skrýtið að horfa á eftir Hrund keyra út úr innkeyrslunni!! En hún er svo dugleg stelpan :) Sjáumst í dag áður en ég fer norður!! :) :) Lov U, þín dóttir Eygló

Nafnlaus sagði...

Gaman að fá ykkur heim og gott að það var svona gaman hjá ykkur. Takk kærlega fyrir okkur í gær.... Sjáumst svooo, tikl dæmis núna!!!! Arna

Nafnlaus sagði...

Afmælisdagurinn minn var mjög vel heppnaður hjá þér en ég verð nú bara að segja þér að þótt það hafi verið gaman í búðunum þá var það ekki það skemmtilegasta við þann dag. Mér fannst mest gaman þegar við keyrðum til Puerto Rico, gengum þar um og fórum svo upp í fjöllin. Ég er þegar farin að hlakka til næsta afmælisdags í "heitu löndunum" eins og við kölluðum suðrænar slóðir þegar við vorum börn. Elska þig endalaust.
Krúttlan