laugardagur, ágúst 08, 2009

Frí...

Vikulangt frí er framundan hjá okkur Erlunni. Við ætlum að eiga náðuga daga hér heima og í kofanum. Það er bæjarhátíð hér á Selfossi í dag og á morgun "Sumar á Selfossi". Ýmislegt forvitnilegt sem við ætlum að sjá og taka þátt í m.a. listflug, götugrill, útimessa, kraftakeppni sterkustu manna íslands (ég tek auðvitað þátt), sléttusöngur (Árni Johnsen) flugeldasýning o.fl. Einnig er hugmyndin að skreppa upp í Sólheima í Grímsnesi á markað sem íbúar þar halda. Þar er til sölu allskyns grænmeti ræktað á staðnum og handavinna íbúanna sem flestir eru fatlaðir. Þetta verður svona letidagur með ýmsum uppákomum.

Svo tók ég villigæs úr frystinum til að elda í kvöld. Okkur áskotnuðust nokkrar gæsir frá einum af viðskiptavinum bókhaldsstofunnar sem Erla vinnur hjá. Ekki amalegt það. Villigæs er eitt það besta sem inn fyrir mínar varir kemur. Ætla að reyna að vanda mig við matseldina.

Einhverntíman í vikunni ætlum við svo að fara í ferðalag austur að Jökulsárlóni og hugsanlega gista í Skaftafelli.... í tjaldi. Það höfum við ekki gert í mörg ár. Veðrið ræður deginum sem við förum, svoleiðis er Ísland.
Það er góð tilhugsun að eiga þessa daga framundan.

Rétt að athuga hvort Erlan sé ekkert að rumska á þessum fallega en blauta laugardagmorgni. Nýmalað kaffi hlýtur að hafa vekjandi áhrif.

Þetta var örfrétt héðan af árbakkanum.
Njótið daganna gott fólk.

Engin ummæli: