miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Verslunarmannahelgin.....

Þá finnst manni alltaf að sumarið sé á lokasprettinum og haustið handan hornsins. Enda er það víst svo, allavega eru ekki nema tvær vikur þangað til að ég sest á skólabekkinn einu sinni enn.
Við áttum afar góða helgi í faðmi fjölskyldu og vina. Dæturnar og þeirra fólk var með okkur á Föðurlandi allan tímann.

Á laugardagseftirmiðdaginn og fram á nótt var haldið ættargrill hjá okkur. Það var fjölmennt, flestir komu þrátt fyrir tilkynningar okkar um að hugsanlega gætu nokkrar litlar dömur verið svínaflesnusmitberar. Flestir létu sér fátt um finnast og mættu í grillið, enda hægt að smitast hvar sem er ef því er að skipta. Snúllurnar eru ekki enn veikar svo hugsanleg hræðsla var óþörf.
Pallurinn milli húsanna sem ég hafði tjaldað yfir rúmaði nánast allan hópinn sem var snilld því nándin þjappaði fólkinu saman. Eftir matinn kveiktum við svo lítinn varðeld í lautinni fyrir framan húsin. Þar voru svo sungin ættjarðarlög fram á nótt við harmoniku undirleik Sigga hennar Gerðu. Þetta var notalegt og nærandi samfélag.

Á sunnudeginum kom svo ættleggur Erlu. Tilefnið var að kveðja Tedda og Kötu sem eru að flytja til Danmerkur. Þar grillaði hver með sínu nefi, afraksturinn lagður á stórt borð og svo fékk fólk sér það sem því leist best á. Þessi grillveisla stóð styttra en kvöldið áður enda fólkið upptekið á Kotmóti og tilefnið annað.

Mánudagurinn var líka góður. Þá var keyrt inn í Fljótshlíð með nesti og nýja skó. Við stoppuðum víða, skoðuðum Gluggafoss og fleiri staði. Enduðum svo í Þorsteinslundi þar sem farið var í leiki með yngsta fólkinu og borðað nesti.
Það eru forréttindi að geta átt svona gott og gefandi samfélag við fólkið sitt. Ég lít á það sem mín mestu auðævi.

Við kíktum á Kotmót. Það fangaði athygli mína að flytja átti sögu kotmóta í máli og myndum. Það var virkilega skemmtilegt að sjá og heyra. Afi og amma eru frumkvöðlar að því starfi sem fer fram í Kotinu. Sagan var lifandi og skemmtileg.
Góð helgi að baki - vinna framundan - smá frí, og svo.....skólinn.

1 ummæli:

ArnaE sagði...

Takk fyrir skemmtilega samveru um helgina, þetta var tær snilld:):) Arnan