sunnudagur, febrúar 17, 2013

Draumanafn.

Í dýrtíðarfárinu sem nú geysar er einn hlutur sem kostar nákvæmlega það sama og áður en dollarinn féll. Það er jafn ókeypis að láta sig dreyma. Það vita nú orðið flestir innan ættar allavega að yngsta dóttirin bætti rós í hnappagatið sitt, lét gamlan draum rætast og breytti nafninu sínu í Hrefna Hrund.
Í gegnum tíðina hefur hún stundum haft á orði hvað hún hefði verið til i að heita Hrefna eins og amma hennar.

Það er kannski við hæfi að nefna það hér að þegar við stóðum í þeim sporum að finna henni nafn kom Hrefnu nafnið sterkt til greina en þar sem litlu eldri frænka hennar hafði fengið þetta nafn ekki svo löngu áður fannst mér ekki hæfa að koma með það aftur svo stuttu síðar.

Þegar ungfrúin óx úr grasi kom æ betur í ljós hversu vel hún hefði borið nafnið því hún líkist ömmu sinni mjög, bæði í útiti og karakter.
Ég vissi til margra ára að ég hafði gert mistök að gefa henni ekki þetta nafn í vöggugjöf og í mörg ár hef ég núið mér um nasir þeim mistökum.
Hún sagði mér svo ekki alls fyrir löngu að í mörg herrans ár hafði hana langað til að bæta nafninu við hennar eigið.
Að skipta um nafn eða bæta við það, er ekki og á ekki, að vera augnabliks ákvörðun. Ég hvatti hana til að hugsa málið vel til að hún anaði ekki að einhverju sem hún sæi hugsanlega eftir. Þegar hún sagði mér að hún hefði  hugsað þetta í tuttugu ár, sem flokkast varla undir "augnabliks", ákvað ég að segja henni mína hlið, að ég teldi mig hafa gert mistök að gefa henni ekki þetta nafn strax og að það væri mér mikill heiður ef hún væri til í að bæta þessu nafni mömmu við.
Það liðu ekki margir klukkutímar þangað til hún hafði gengið frá þessu og sent tilheyrandi gögn á tilheyrandi staði. Hrefna Hrund mín... til hamingju, nú er nafnið komið á "sinn" stað.

Þessi sunnudagur ætlar að enda sem frídagur, við ákváðum um miðjan dag þegar við höfðum ekki komið okkur af stað í vinnu að nota þá bara daginn til að slappa af. Það er því með góðri samvisku sem ég sit hér við tölvuna og læt gamminn geysa. Ætla að njóta samfélags við Erluna mína og frú Leti, jú henni var boðið í heimsókn í morgun og er þaulsetin eins og fyrri daginn ef henni er á annað borð helypt inn fyrir þröskuldinn.


Engin ummæli: