sunnudagur, desember 31, 2006

Nú árið er liðið........


.........í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka........ Við Erla erum þakklát fyrir árið sem er að kveðja. Það hefur verið okkur afar gott og gefandi eins og flest árin okkar hafa verið. Árin bera auðvitað með sér misjafnlega góða hluti eins og gengur, hjá okkur eins og öðrum. Eins og þið hin stigum við inn í nýtt óskrifað ár um síðustu áramót með góðar væntingar til nýs árs. Þar bar einna hæst, útskrift mín úr lagadeild, vonir um gott og ferðaglatt sumar og kannski einhverja hugmynd um breytingu á húsnæðismálum án þess að neitt væri ákveðið í þeim efnum. Árið bar í farteski sínu allskyns tækifæri og hugmyndir sem við sum hver nýttum og önnur ekki.
Síðasta önnin í laganáminu var erfið og því vorum við mjög ánægð þegar öll próf voru í höfn og útséð að BA gráðan var orðin staðreynd.
Það var því hátíðarstund í Háskólabíói þann 10. júní við útskriftina sem var mjög skemmtileg. Ég bý svo vel að eiga svo frábærlega samhenta og góða fjölskyldu. Erla og dæturnar höfðu óvænt undirbúið kaffisamsæti heima hjá Írisi og Karlott þar sem samankomin voru systkini okkar beggja og örfáir vinir okkar, en þessi leyniveisla var punkturinn yfir i-ið þennan dag og gerði hann ógleymanlegan fyrir mig enda grunaði mig ekkert.

Eins og fram er komið vonuðum við að við gætum eitthvað gert í húsnæðismálum á nýju ári. Vesturbergsfléttan var hugsuð sem skólasjóður og því ekki fjarri lagi að kíkja hvað við gætum gert þegar hyllti í útskrift. Á vordögum með hækkandi sól og aukinni bjartsýni fórum við að skoða húsnæðimálin okkar.
Internetið færði okkur hugmyndina að "Húsinu við ána". Selfoss hafði ekkert verið sérstaklega í huga okkar (kannski aðeins hjá mér) en mynd af húsi með útsýni yfir Ölfusána kveikti áhuga sem endaði með kaupsamningi um húsið. Við kolféllum, eins og þið vitið, fyrir hvorttveggja húsinu og staðnum.

Daginn eftir útskrift eða 11. júní fluttum við svo á þennan stað sem við erum ennþá í skýjunum yfir. Húsið hefur tekið stakkaskiptum frá því að við keyptum það. Við vissum að það væri þreytt og taka þyrfti til hendinni enda var það forsenda fyrir afar hagstæðu verði hússins. Það hentaði okkur frábærlega vel þar sem ég er jú smiður og því hæg heimatökin. Núna í lok ársins tókum við eldhúsið í gegn en það var varla hægt að tala um eldhúsinnréttingu í húsinu. Nú er sem sé komin ný og falleg innrétting og frúin hlær í betra .... eldhúsi.
Við settum líka nýjan glugga á aðalútsýnishornið úr eldhúsinu svo nú erum við með síbreytilegt málverk af einhverju fallegasta útsýni sem hægt er að hugsa sér. Glugginn sannaði tilverurétt sinn núna réttt fyrir jólin þegar flóðið mikla kom í Ölfusá, því við höfðum þessar stórfenglegu hamfarir árinnar í beinni útsendingu á breiðtjaldi. Það var alveg magnað sjónarspil.

Lesendum þessarar síðu er kunnugt um að ekki eru húsamálin upptalin með “Húsinu við ána” því við fjárfestum líka í "kofa" á Fitinni. Hann er ekki stór eða 15 fermetrar en því notalegri. Erla er stakur snillingur að gera kósý í kringum okkur og sannast þar máltækið: "Maðurinn byggir húsið en konan gerir það að heimili". Við áttum góðar stundir þarna í Föðurlandi voru í okkar fjallakofa. Hugmyndin er að bæta kannski við það síðar, en næsta skref er að koma rafmagni í húsið svo það verði almennilega íveruhæft þótt kalt sé í veðri.

Ekki verður allt gert í einu. Í framhaldi af öllum þessum framkvæmdum ársins tók ég ákvörðun um að fresta mastersnáminu um eitt ár og reyna að safna aftur í sarpinn smá skólasjóði. Það varð þess vegna úr að við stofnuðum fyrirtækið LEXOR ehf. Markmiðið er að reka það með byggingarstarfsemi og lögfræðiþjónustu í bland. Verkefnin byggingamegin hlaðast upp hraðar en tönn á festir og lögfræðihliðin fylgir sígandi upp á við í kjölfarið, enda stækkar byggingastarfsemin snertiflötinn við þann markað sem ég stefndi á með mína lögfræðiþjónustu þ.e.a.s.byggingamarkaðinn. Nokkrir Pólverjar hafa verið ráðnir í byggingavinnu. Þeir eru harðduglegir og samviskusamir verkmenn sem gott virðist vera að hafa í vinnu.

Spurningunni um hvernig það er að keyra svona á milli Selfoss og Reykjavíkur er nokkurnveginn svarað þar sem nú er liðið hálft ár síðan við fluttum. Í ljós hefur komið að fjölskyldunni þykir þetta ekkert tiltökumál enda ekki nema hálftíma akstur að Rauðavatni, eða lítið lengri tími en tekur að ferðast milli borgarhluta á álagstímum. Þetta er reyndar bara góður tími til að slaka á eftir daginn.

Erla hefur stundað sína vinnu hjá bókhaldsþjónustunni Erninum í Nethylnum. Henni líkar þessi vinna afar vel þar sem hún er á heimavelli þegar kemur að því að fást við tölur. Talnaglöggvi hennar á sér fáa líka eins og þeir sem hana þekkja vita.
Nú í desember fórum við utan til Kaupmannahafnar í boði bókhaldsþjónustunnar. Þar kom fram hversu störf Erlu eru vel metin innan fyrirtækisins. Við gistum á Hótel Imperial, ágætishóteli rétt við Ráðhústorgið svo stutt var að ganga á alla helstu staðina. Köben er alltaf skemmtileg og þessi ferð var engin undantekning. Við fórum aftur á Reef and beef, það var upplifun eins og áður.

Það bættist við okkar ört stækkandi fjölskyldu á árinu. Björn Ingi Jónsson (kallaður Bjössi) giftist Eygló okkar þann 7. október. Athöfnin fór fram í Selfosskirkju og veislan var haldin að Básum undir Ingólfsfjalli. Veislan þótti skemmtileg og veisluföng afbragðsgóð. Það er gaman að geta þess að staðarhaldarar og starfsfólk þeirra kom því sérstaklega á framfæri við okkur hversu vel þeim þótti hafa tekist til. Þau sögðu þetta eina skemmtilegustu brúðkaupsveislu í 20 ára sögu staðarins. Okkur þótti gaman að heyra þetta enda fannst okkur sjálfum þetta vera stór og skemmtilegur dagur. Eygló og Bjössi búa í Vesturbergi 72, íbúðinni "okkar" en þau keyptu af okkur íbúðina þegar við fluttum á Selfoss. Þar una þau hag sínum vel, íbúðin falleg og vel rúmgóð fyrir þau.

Arna og Davíð slitu samvistum á árinu. Þeirra sambúð sannaði fyrir okkur að sumu fólki er ekki ætlað að búa saman. Örnu gengur hinsvegar vel að ná áttum og er afskaplega dugleg með sínar litlu blómarósir. Þær eru miklir hjartabræðarar litlu dömurnar og hafa afa sinn (og ömmu) algjörlega í rassvasanum.
Þau Davíð eru með sameiginlegt forræði yfir dömunum og skipta vikunum milli sín. það form gengur vel upp, allavega meðan Davíð býr í Reykjavík. Arna býr nú í Bláskógum í Seljahverfi, lítilli fallegri íbúð í tvíbýli. Henni líður vel þar með snúllurnar sínar.

Íris og Karlott búa í Háholtinu í Hafnarfirði ásamt litlu dömunum sínum. Þær hafa þetta sama bræðieðli og Örnudætur á okkur afann og ömmuna .
Karlott var keyptur frá Securitas til Landsbankans. Það sagði meira en mörg orð um ágæti hans. En Björgólfur gamli sá sjálfur um kaupin. Það þýddi auðvitað stökk í launum og viðurkenningu á störfum hans.
Íris er á fullri ferð í laganáminu og gengur það vel og þau hjónin samhent í að púsla saman barnauppeldi, heimilisstörfum, vinnu og námi. Henni hefur tekist að ná öllum prófum fram að þessu sem er afar gott í laganámi. Þau hjónin ætla að feta í fótspor okkar Erlu og vera ekkert að bíða með að koma sínum börnum í heiminn. Von er á nýju barni hjá þeim í lok maí á komandi ári. Það má segja að við Erla búum við blessað barnalán þar sem það verður 6. barnabarnið okkar. Enginn bilbugur er á Írisi hvað námið varðar, hún hefur þegar ákveðið hvernig náminu verður framhaldið.

Hrund hefur stundað nám í Kvennaskólanum. Það líkar henni afar vel enda er Kvennaskólinn góður skóli. Henni gengur námið vel sem fyrri daginn. Hún hefur ekki mikið fyrir því að ná góðum einkunnum. Hrund hefur stundað áhugamálin af kappi þetta árið. Söngurinn á hennar hug og hjarta. Hún fór í söngferðalag til Ítalíu í sumar með kórunum Vox femine, Vox junior og Gospelsystrum Reykjavíkur.
Hún hefur vakið athygli stjórnenda kórsins fyrir sterka og hljómmikla rödd ásamt því að vera mjög tónviss.

Þessi stutta yfirferð var auðvitað bara smá skautun á yfirborðinu. Árið var okkur afar viðburðaríkt í fjölmörgu öðru sem ekki er tiltekið hér. Verkefnin af misjöfnum toga en flest skemmtileg. Við hjónin þökkum Guði fyrir slysalaust ár innan fjölskyldunnar og biðjum ykkur vinum okkar og vandamönnum hins sama á komandi ári.
Við hlökkum til næsta árs sem okkur er fært sem óskrifað blað. Vonandi tekst okkur að skrifa söguna okkar áfram á þessum góðu nótum. Þess sama óskum við ykkur öllum.
Þetta eru fyrstu áramótin okkar hér á nýjum stað. Við borðuðum saman öll stórfjölskyldan áðan, áramótaskaupið var að klárast og nú er skothríðin byrjuð. Það verður gaman að upplifa áramót á nýjum stað.
Að lokum, takk fyrir góðar heimsóknir og skemmtilegar kveðjur hér á síðunni.

Guð blessi ykkur nýtt ár.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stutt og laggott....

TAKK INNILEGA FYRIR OKKUR ;)

Fjölskyldan í Háholtinu.