Jólin eru að ganga í garð. Það er ilmur af jólum í húsinu, ilmurinn af jólakjötinu og hrísgrjónagrautnum ásamt jólalögunum sem óma úr stofunni og kynda undir þessa stemningu sem er svo skemmtileg og framkallar svo góðar og ljúfar minningar. Það kyndir enn undir hátíðleikann að búa á svona stað. Nágranni okkar fór áðan út undir á að gefa hrafninum. Krummi mætti auðvitað í jólamatinn og lauk honum á stuttum tíma. Áin er óðum að jafna sig og er farin að líkjast sjálfri sér aftur. Ég kann nú betur við hana svona eins og hún á að sér að vera, þó svo að hún hafi verið stórbrotin í ham. En það sem ég átti við með “svona stað” er að kyrrðin og fallegt umhverfið eykur einhvernveginn á jólastemninguna. Það er eitthvað sem minnir á gamla tíð – sveitin, kyrrð og friður sem erfitt er að nálgast í stórborginni en á einhvernveginn heima hér.
Kannski sagan af fjárhirðunum í haga undir stjörnubjartri nóttinni kyndi undir þessa mynd að friði á jólum.
Hrund og Arna eru hér að stússast með okkur Erlu. Þær eru að pakka síðustu pökkunum inn og gera sig klárar fyrir hátíðina. Þær skreyttu jólatréð í gærkvöldi svo það stóð skreytt eins og venjulega á aðfangadagsmorgni.
Erla stendur við pottana núna og hrærir í grautnum. Grauturinn þessi er ómissandi þáttur í jólahaldinu. Hann kom með pabba inn í búskap þeirra mömmu. Var alltaf á borðum öll jól sem ég man eftir mér, og öll jól sem við Erla höfum síðan haldið saman. Stelpurnar hafa erft þessa hefð og geta ekki hugsað sér jól án grautsins. Ekkert venjulegur Risalamande – allt öðruvísi og miklu betri.
Ég keypti reykta nautatungu áðan sem núna sýður í potti. Nautatunga hljómar kannski ekkert vel sem matur, en er afar ljúffeng – góð á jólum.
Ég er semsagt undir áhrifum:
Friðar, góðrar stemningar, fjölskyldulífs sem umvefur mig, fallegs umhverfis og síðast en ekki síst, Jesúbarnsins sem fæddist - með ákveðinn tilgang, sem of oft gleymist, sérstaklega hjá kristnum lögmálskennendum.
Óska ykkur öllum lesendum síðunnar minnar gleðilegrar jólahátíðar og friðar.
4 ummæli:
Það er svo sannarlega notalegt að vera hérna í sveitinni á jólunum. Og jólamaturinn er æðislega góður... Nammi, namm. Hafðu það gott pabbi, þú ert frábær.... kokkur:):):) Arnan þín
Gleðileg jól elsku pabbi :) Það var rosalega gaman að koma til í ykkar í gær og það sem jólamaturinn var góður, að ég tali nú ekki um grautinn sem allir borðuðu svo vel af, það er ekki til nógu sterk lýsingarorð til að lýsa hversu góður maturinn var... M-M-M :)
Sjáumst á eftir, þín Eygló og Bjössi biður að heilsa :)
Gleðileg jól öllsömul
-og takk fyrir heimsóknina Erling minn -
það er satt að það er það er miklu betra en engin heimsókn að fá heimsókn á bloggið.
Satt að segja var ég farin að halda að enginn nennti að lesa bloggið mitt því svo fáar athugasemdir komu.........
En með heimsóknir svona heim til manns þá get ég ekki kvartað yfir öðrum á meðan ég er ekki duglegri sjálf...
-En þú gleymdir að segja á þínu bloggi hvað þið eruð með í aðalrétt:)
Það hlýtur að vera eitthvað sem ekki má breyta
-eins og allsstaðar:)
Kærar jólakveðjur
Gerða sys
Það er alltaf hamborgarhryggur. Frá Nóatúni. Ég vel hann alltaf sjálfur. Hann verður að vera vel fitusprengdur, annars verður hann þurr. Eldaður eftir kúnstarinnar reglum auðvitað, sem ekki má bregða út af. Á jóladag er svo hangiket með uppstúf og öllu tilheyrandi auðvitað, frómas á eftir sem Erla gerir og heimalagaður ís, líka eftir Erlu.
Áramótin eru ekki svona fastbundin, við getum alveg haft mismunandi mat þá :-)
En svona eru jólin....
kv E
Skrifa ummæli