Ég hélt að hún ætlaði að ganga af göflunum. Hún lætur engan stýra sér frekar en fyrri daginn. Ölfusá er búin að vera sjóðandi kolvitlaus undanfarið. Skapill sú gamla.
Að morgni dags fyrir tveimur dögum síðan varð mér litið niður að á og fannst hún eitthvað skrítin. Hafði orð á því við Erlu að hún væri eittthvað öðruvísi. Við gerðum okkur ferð niður að á í morgunskímunni. Í ljós kom að mikill jakaburður var í henni og hún miklu meiri að vöxtum en venjulega. Við fórum þá niður að kirkju og sáum þá að áin var í miklu stuði. Við vorum ein þarna á bakkanum fyrir utan einn ljósmyndara sem var að taka myndir af hamnum.
Jakaburðurinn var ofsalegur og líklegast að þetta hafi verið úr Stóru Laxá í hreppum en hún hafði rutt sig sólarhringnum á undan. Jakarnir voru ótrúlega stórir og þykkir. Þeir byltust í rótinu og risu og hnigu eins og stórhveli, sumir kolsvartir. Við kirkjuna er mikið dýpi (talið um 25 metrar) þar var eins og suðupottur. Klakarnir soguðust greinilega niður á mikið dýpi og komu svo æðandi upp í hvítfryssandi iðum og risu sumir 2 - 3 metra upp áður en þeir hnigu niður aftur. Þetta var magnað sjónarspil.
Eins og allir vita var flóð að byrja í ánni þarna um morguninn. Ég held að við höfum fattað það fyrst ;-/
Hún átti eftir að vaxa miklu meira. Við höfðum þessar hamfarir árinnar á breiðtjaldi út um nýja gluggann okkar á eldhúsinu. Það var stórbrotin sjón og varla hægt að lýsa hughrifunum. Við duttum bæði strax í þann gírinn að þykja þetta óskaplega magnþrungið. Við störðum dáleidd á þessa ógnarkrafta sem í ánni býr sem ekkert mannlegt getur hamið.
Hugsunin um hana sem fallega elfu í sumar sem fóstraði ógrynni fugla og fiska var mjög fjarri þegar maður sá hana í þessum ham.
Þetta er samt alveg frábært að hafa hana svona sem næsta nágranna og fylgjast með henni á hverjum degi. Hún steytir ekki skapi sínu oft á þennan hátt en á árunum 1930, 1948 og 1968 lét hún eitthvað líkt þessu.
Hún er núna að róast og er hætt að flæða yfir veginn hérna fyrir ofan.
Veðráttan er söm við sig samt og nú er von á nýju ofsaveðri í nótt. Það virðist vera að veðráttan sé að breytast ....kannski eru það gróðurhúsaáhrifin.
Skatan á morgun...ætla þó ekki að reyna við jafnsterka og í fyrra. Hún er betri passleg.
Og svo jólin handan hornsins enn einu sinni.....alltaf gaman þá.
3 ummæli:
Hvernig er það, getur þú ekki kvartað við einhvern yfir þessum nágranna? Látið kannski bera hann út...?
Eða... ef til vill er best að ekki vera tjónka við hann, víst skapið er svona illviðráðanlegt í honum :)
Takk fyrir síðast! Alltaf GOTT að ,,fara yfir um"... sem sagt, heiðina til ykkar!
Hafið það gott þarna í nágrenni við þann ,,sjóðandi vitlausa...".
Sjáumst,
Karlott í Hafnarfirðinum
Karlott, maður segir "fyrst" en ekki "víst"............. Já áin var aldeilis mikil og frussandi og orðin heldur frek á plássið. Rosalega gaman að sjá hana svona mikla. Sjáumst eftir nokkrar mínútur. Arnan þín:)
Úps, þetta var sko Arna, ég gleymdi að tikka í "anonymous"
Skrifa ummæli