Blessað fólkið í landinu okkar er orðið svo gegnumsýrt af krepputali að það sér ekki til sólar þegar léttir til.
Ég sagði það og segi enn að landið okkar, þetta frábæra Ísland sem kraumar af auðlindum sem þjóðir heims öfunda okkur af, færir okkur fyrst allra þjóða upp úr kreppunni. Landið er okkar auðlind. Fólk sér frumkraftana sem mynduðu þennan heim myndbirtast í beinni útsendingu frá Íslandi og situr fast á flugvöllum um gjörvallan heim vegna litlu eyjunnar í norðri. Þessir frumkraftar sem allt mannkyn ber virðingu fyrir og litla þjóðin sem býr hér hefur á sér þennan sama stimpil og þykir hafa til að bera sömu frumkraftana og landið sjálft.
Við búum vel að hafa úr öllum þessum auðlindum að spila. Fiskurinn, varminn, orkan og nú síðast olían sem vísindamenn eru ekki lengur í vafa um að finnst á landgrunninu fyrir austan land eru gullnámur sem gefa vel og hagkerfið okkar er örsmátt svo það þarf ekki mikið.
Enda þegar litið er yfir sviðið þá eru hagtölur okkur hagfelldar, við sjáum mjög þokkalegan hagvöxt á árinu sem jafnast á við best settu þjóðir álfunnar. Fiskafurðir eru í hæstu hæðum og vöruskipti við útlönd eru hagstæð um tugmilljarða mánuðum saman. Hækkandi lánshæfimat okkar undirstrikar að við erum á réttri leið.
Gott fólk við höfum fulla ástæðu til að líta upp úr svartnættinu og láta þessar staðreyndir auka okkur bjartsýni og von til framtíðar.
Svo auðvitað gildir hið fornkveðna að "áhyggjur auka ekki spönn við aldurinn" svo þannig séð er það betra lífsmottó að líta bjartari hlið tilverunnar en þá svartari.
Njótið dagsins vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli