Það telst góður vandi að hafa full mikið af verkefnum á sinni könnu er það ekki? Ég lít raunar ekki á það sem vanda heldur blessun. Opnun Dominos hér fór varla framhjá nokkrum manni, en formleg opnun var í gær. Verkefninu er því lokið og við taka næstu verkefni.
Ný reynsla liggur við tærnar. Ég var dómkvaddur sem matsmaður af Héraðsdómi Reykjaness til að leggja mat á þrjú mál sem tekist er á um, tvö gallamál sem varða byggingar og eitt sem snýr að skiptingu kostnaðar vegna lóðarvinnu við tvö fjölbýlishús. Þetta er mikil ábyrgð því matið er lagt fram sem sönnunargagn um umfang og kostnað.
Ísbúðin fór á bið þegar Dominos verkefnið byrjaði. Nú er það komið á skrið aftur og er ætlunin að opna fyrstu dagana í apríl.
Svo hleðst á snjóboltann "lögfræðileg verkefni" hjá mér sem ég velti af stað fyrir rúmu ári síðan. Ég sé ekki eftir því að hafa opnað lögfræðistofu sjálfur. Er með allnokkur mál undir núna sem ég er að vinna að og fleiri bætast við reglulega. Það hentar mér vel að vera sjálfstæður í því sem ég er að gera hverju sinni, á erfitt með að láta aðra stýra mér, enda tel ég mér trú um að ég geri það best sjálfur ;-)
Allir þurfa að hvíla sig og við ætlum að taka smá pásu frá öllu núna, það verður yndislegt. Sumarhús í Danmörku bíður okkar. Það verður samt í bland, frí og vinnuferð, því við ætlum að heimsækja tvær heildsölur fyrir Home design og versla inn fyrir búðina og líka eitthvað fyrir Basicplus.
Það er samt fjarri mér að kvarta undan því að vera upptekinn í dagsins önn, ég lít á það sem forréttindi enda þrífst ég vel í ati.
Ein hugsun hér fyrir daginn. Allir eiga sér drauma um framtíðina, eitt lítið orð skilur á milli þeirra sem láta þá rætast og hinna sem ná því ekki... það er orðið "framkvæmd"
Njótið dagsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli