Heima er best eins og segir. Danmörk er líka fínasta land þó ekki vildi ég búa þar. Hér hef ég það sem ég met mest í lífinu. Fjölskyldan trónir á toppnum. Þar stendur mér næst kjarninn minn en stórfjölskyldan mín, systkini, mágar og mágkonur, frændur og frænkur, tengdaforeldrar og vinir hafa líka mikið vægi. Svo hefur landið sjálft mikinn segulkraft á mig.
Það var yndislegt að heyra í farfuglunum sem hafa komið hingað meðan við vorum utan. Það finnst kannski mörgum skrítið hvað þessi rútína náttúrunnar togar í mig en það skiptir mig ekki máli. Árstíðirnar hér á landi búa við sjarma, sinn með hverju sniðinu og mér finnst þær allar heillandi. Ég verð víst aldrei búsettur annarsstaðar en hér, Ísland er best.
Dominos verkefnið gekk vonum framar og tilætluð áætlun gekk eftir, að skila því á fimm vikum sem var djarft, enda var ég með vel valda áhöfn, góða verktaka sem stóðu sig vel.
Danmerkurferðin var líka fín. Hún var hugsuð sem frí- og vinnuferð. Við mynduðum tengsl við danska heildsala sem við höfum nú góða tengingu við og getum flutt inn mjög fallegar danskar vörur fyrir Home design, en dönsk hönnun er mjög vinsæl. Við keyptum líka helling inn fyrir Basicplus.
Sumarhúsið þarna var þegar til kom, fimm stjörnu, og þar var allt til alls. Við höfðum það því gott þar í skóginum og ekki síður í framhaldinu hjá Óla og Annette sem tóku vel á móti okkur eins og venjulega.
Nú erum við komin heim og verkefnin bíða á færibandi. Við opnum ísbúðina fyrir páska og því er líklegt að mikið verði að gera hjá okkur yfir páskana. Verulega hefur bæst við lögfræðileg verkefni undanfarið og Erla er á kafi í bókhaldsvinnu svo það er í mörg horn að líta þessi dægrin.
Ég á von á Emmessís mönnum á eftir svo nú er það kaffibollinn með frúnni. Hún er komin á ról og það freistar mín alltaf að setjast niður með henni og spjalla aðeins áður en farið er út í daginn.
Páskar framundan og frí, njótið því daganna vinir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli