Ég þekki það á eigin skinni að dagarnir eru misgóðir, eða jafnvel ákveðin tímabil sem maður gengur í gegnum. Ég geri það gjarnan að kíkja um öxl og líta yfir farinn veg. Ef ég skyggnist tuttugu ár aftur þá sé ég krepputíð hjá okkur fjölskyldunni. Hún var hörð við okkur og skildi eftir sig spor sem marka allt sem á eftir hefur farið. Hún stóð yfir í rúman áratug frá tuttugu og níu ára aldri til fertugs.
Kreppan margumtalaða í dag er eins og þreytandi rigningartíð síðvetrar þar sem maður bíður eftir að vorið fari að láta sjá sig og allt verði grænt aftur. Kreppan, eins og hún er þreytandi þá er hún vissulega staðreynd en hún er miklu líkari leiðinda tíðarfari en harðneskju.
Undanfarnir mánuðir hafa verið ótrúlega annasamir hjá okkur og lítill tími gefist til að huga að öðru en vinnu. Einhvernveginn finnst manni að vinnan komi til manns og svo bíður maður eftir að lát verði á en svo er það bara þannig eins og einn góður maður sagði við mig um daginn þegar mér varð á að segja að ég hefði fullmikið umleikis: "þú sérð um það sjálfur að hafa svona mikið að gera" og það var auðvitað hárrétt.
Hver er sinnar gæfu smiður (eða skrifstofustúlka) og þannig er það með okkur öll. Mælikvarðinn á raunveruleg verðmæti verður aftur á móti ekki lesinn fyrr en sagan er sögð.
Mín innrétting er þannig að ég vil hafa nóg að sýsla en ekki of mikið. Ég vil hafa tíma fyrir lífið sjálft, til að leika mér, hugsa um garðinn minn, leika við barnabörnin, ferðast og eiga samfélag við mann og annan. Það er það sem gefur lífinu gildi þegar upp er staðið og vegur meira á gæðamælikvarðanum en vinna þótt hún göfgi manninn eins og sagt er. það er jú þannig eins og segir í heilagri bók að "Ekkert er betra með manninum en að eta og drekka og njóta ávaxta handa sinna.
Þessvegna er ég hættur þessu pári núna og ætla að hella upp á kaffi fyrir frúna sem var að koma niður og njóta restar morgunsins með henni, fá mér að eta og drekka og njóta vel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli